Einkunnir skulu gefnar í heilum, eða heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Aðaleinkunn er vegið meðaltal allra einkunna til lokaprófs. Aðaleinkunn reiknast með tveimur aukastöfum, og er 9,0 - 10 ágætiseinkunn, 7,25 - 8,99 er fyrsta einkunn, 6,0 - 7,24 er önnur einkunn, og 5,0 - 5,99 er þriðja einkunn.Almenn ákvæði um lágmarkseinkunnir eru í 62. grein reglnanna:
Stúdent telst ekki hafa staðist próf nema hann hljóti einkunnina 5,0 eða ígildi hennar í bókstaf. Heimilt er í reglum þessum að víkja frá þessu í einstökum prófum, prófhlutum og prófflokkum og krefjast hærri eða lægri lágmarkseinkunnar. Sérákvæði deildar um hærri lágmarkseinkunn en 5,0 í einstökum prófgreinum, prófhlutum eða prófflokkum skulu aðeins gilda fyrir nemendur hlutaðeigandi deildar.Sérákvæði lagadeildar um lágmarkseinkunnir og slíkt eru í 92. grein reglnanna:
Til að standast próf í B.A.-námi í lögfræði verður stúdent að hljóta minnst einkunnina 6,0 í öllum námsgreinum hverri um sig. Lokaeinkunn til B.A.-prófs í lögfræði skal reiknuð sem vegið meðaltal einkunna úr einstökum námsgreinum. Stúdent er ekki heimilt að gangast oftar en fjórum sinnum undir sama próf í námsgreinum í B.A.-námi. Falli stúdent fjórum sinnum á prófi í sömu námsgrein í B.A.-námi, er hann fallinn úr lagadeild. Á fyrsta misseri B.A.-náms í lögfræði, haustmisseri, getur stúdent eingöngu skráð sig til náms í þremur námsgreinum, þ.e. almennri lögfræði ásamt ágripi af réttarsögu, inngangi að lögfræði og Evrópurétti. Á vormisseri fyrsta námsárs getur stúdent eingöngu skráð sig til náms í stjórnskipunarrétti ásamt ágripi af þjóðarétti, sifja- og erfðarétti og heimspekilegum forspjallsvísindum. Skilyrði þess að stúdent geti skráð sig í aðrar námsgreinar í B.A.-námi er að hann hafi staðist próf í almennri lögfræði ásamt ágripi af réttarsögu og inngangi að lögfræði.Af þessu má sjá að svarið um sérstöðu lagadeildar í þessu efni er bæði já og nei: Reglur deildarinnar eru að sumu leyti alveg eins og annarra en að öðru leyti ekki. Einkunnastiginn er sá sami en lágmarkseinkunnir eru öðruvísi en í mörgum öðrum deildum. Í viðbót við spurninguna kom fram að spyrjandi taldi að einkunnastigi væri annar í lagadeild en annars staðar. Svo var í eina tíð en er sem sagt ekki lengur.
Svarið var uppfært í apríl 2007 með tilliti til breyttra reglna.