Hvað heitir höfuðborg Svartfjallalands? (Af því að Svartfellingar áttu alltaf höfuðborg með Serbíu, það er Belgrad.)Svartfjallaland (Montenegro) er land staðsett á Miðvestur-Balkanskaga. Í landinu búa um það bil 680.000 manns (miðað við tölur frá 2007). Stærsta borgin heitir Podgorica, og er hún einnig höfuðborg landsins. Í henni búa kringum 140.000 manns (miðað við tölur frá 2003). Podgorica merkir 'undir litla fjallinu', en borgin liggur við Gorica-hæð. Podgorica hefur borið ýmis önnur nöfn. Hún var stofnuð undir nafninu Birziminium og hét svo Ribnica á miðöldum allt til ársins 1326. Þá var skipt yfir í nafnið Podgorica. Á árunum 1946-1992 hét borgin Titograd eftir Josip Broz Tito, leiðtoga Júgóslavíu á þessum tíma. Borgin tók aftur upp eldra nafnið Podgorica árið 1992. Svartfjallaland myndaði ásamt Serbíu Sambandslýðveldið Júgóslavíu árið 1992 eftir fall Sósíalíska sambandslýðveldisins Júgóslavíu (Fyrrum Júgúslavía) árið 1991. Auk þess öðluðust ríkin Makedónía, Slóvenía, Króatía og Bosnía og Herzegóvína sjálfstæði. Árið 2003 var nýtt ríki myndað og nafni Sambandslýðveldisins Júgóslavíu breytt í Serbía og Svartfjallaland en Svartfellingar fengu sjálfstæði árið 2006. Ísland var fyrsta landið í heiminum til að samþykkja sjálfstæði Svartfellinga, og eru Svartfellingar afar þakklátir þeim. Löndin í kringum Svartfjallaland eru Serbía, Króatía, Bosnía og Hersegóvína og Albanía (sjá svar við spurningunni Hvar í Evrópu er Albanía? eftir Margréti Kristjánsdóttur). Opinbert tungumál í Svartfjallalandi er mállýska úr serbnesku, ljekavian-mállýskan, en hún var tekin upp í stað serbó-króatísku árið 1992. Víða er farið að nefna þetta mál svartfellsku en 21,53% Svartfellinga segjast tala svartfellsku. Önnur mál sem töluð eru í Svartfjallalandi eru mál nágranna þeirra; albanska, bosníska og króatíska.
Þetta svar er eftir nemenda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum Háskóla Íslands fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2007.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvaða lönd teljast til Evrópu? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur.
- Hvar er hægt að finna lista yfir íslenskar þýðingar á heitum erlendra borga? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Hver er stærsta borg í heimi og hvað búa margir í borginni? eftir Hauk Má Helgason og Hrannar Baldursson.
- Montenegro á Britannica.
- Podgorica á Britannica.
- Podgorica á Wikipediu.
- Languages of Montenegro á Wikipediu
- Fánamyndin er af Wikimedia og er birt undir
Creative Commons leyfi.