Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
„Ja, natürlich,“ væri freistandi svar við spurningunni. Hefðu Þjóðverjar hernumið Ísland á undan Bretum árið 1940, haldið völdum hér og æ síðan ráðið ríkjum um gervalla Evrópu, jafnvel víðar, þá hefði það vitaskuld haft áhrif á menningu okkar og tunguna sömuleiðis. Frelsi væri væntanlega af skornum skammti og einræðiskenningar nasismans í hávegum hafðar. Einhver þýsk orð hefðu kannski slæðst inn í tunguna og víst er að engilsaxnesk áhrif á hana hefðu orðið mun minni en raun bar vitni frá seinna stríði.
Þetta er stutta og einfalda svarið. En eitt og sér segir það ekki nóg. Áfram verðum við að spyrja: Er líklegt að svona hefði getað farið? Og er skynsamlegt að velta vöngum yfir því sem hefði getað gerst en gerðist ekki?
Byrjum á seinni spurningunni. Fólk hefur lengi haft gaman af því að velta fyrir sér hvað hefði getað gerst í mannkynssögunni. Á ensku nefnast slíkar hugleiðingar "counterfactual history", "alternate history" eða "what if history". Á íslensku virðist nýyrðið efsaga henta vel.
Dæmi um það sem fólk hugleiðir má finna á vefsíðum eins og www.uchronia.net og www.alternatehistory.com. Hér má sérstaklega nefna að vinsælt þykir að spyrja hver gangur sögunnar hefði orðið ef Persar hefðu brotið Grikki á bak aftur til forna. Hefði menning Vesturlanda ekki orðið öll önnur? Og hvað ef suðurríkin hefðu haft betur í bandarísku borgarastyrjöldinni 1861-1865? Hvað ef Hitler hefði fallið í fyrri heimsstyrjöld, oft skall víst hurð nærri hælum hjá honum í þeirri orrahríð. Eða Winston Churchill sem reyndist þjóðhetja Breta á örlagastundu, hann var nærri búinn að týna lífi í flugslysi fyrir seinna stríð og hver hefði gangur þess orðið hefði hans ekki notið við?
Vinsælustu „hvað ef“ hugleiðingarnar snúast einmitt um seinni heimsstyrjöldina, þann mikla hildarleik. Hvað hefði gerst ef Þjóðverjar hefðu ekki sýnt linkind við Dunkirk sumarið 1940 sem gerði Bretum kleift að flýja með herafla sinn yfir Ermarsund eftir hina vonlausu vörn Frakklands? Hvað ef Hitler hefði ekki anað út í það feigðarflan að herja á Sovétríkin ári síðar? Hvað ef Bandaríkjamenn hefðu ákveðið að halda sig til hlés eins og hefði svo sannarlega getað orðið ofan á í Washington?
Ef Þjóðverjar hefðu hernumið Ísland væri þetta kannski sönn mynd af Hitler að spóka sig á Þingvöllum, en ekki tilbúningur.
Hvað ef, hvað ef, hvað ef? Spurningarnar eru óendanlegar ef út í það er farið. Og hvers vegna þá að gera það? Lærðir sagnfræðingar hafa löngum haft ímugust á hugleiðingum um það sem gæti hafa gerst. Til dæmis sagði E. H. Carr (1892-1982) í vinsælu kennsluriti sínu, What is History? að sagan snerist um það sem fólk gerði, ekki það sem það gerði ekki. Annar breskur sagnfræðingur, E. P. Thompson (1924-1993), gekk svo langt að kalla hugleiðingar um það sem hefði getað gerst „sagnfræðilegt drit“ sem engu máli skipti. Fleiri dæmi mætti telja og vissulega er sitthvað til í skömmum og efasemdum af þessu tagi.
Í fyrsta lagi er alltaf svo óteljandi margt sem hefði getað gerst hverju sinni að oft er vandséð af hverju einn atburður ætti að skipta sköpum en annar ekki. Hvað féllu til dæmis margir Þjóðverjar í fyrri heimsstyrjöld? Má ekki hugsa sem svo að í hópi þeirra hafi verið lýðræðishetjan sem hefði getað stemmt stigu við vaxandi veldi Adolfs Hitlers og nasistanna? Á hinn bóginn má líka benda á að með Versalasamningunum og efnahagslegri upplausn í Þýskalandi eftir fyrra stríð hafi jarðvegur skapast fyrir einræðisflokk sem vildi reisa landið til vegs og virðingar. Einstaklingurinn Hitler hafi því ekki skipt sköpum; hefði hans ekki notið við hefði annar fyllt hlutverk hans í sögunni.
Þar að auki hefur verið kvartað undan því að sumir sem velta fyrir sér hvað hefði getað gerst gefi ímyndunaraflinu alveg lausan tauminn svo úr verði farsi eða fantasía sem á ekkert skylt við raunveruleikann og viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Þannig hefur verið spurt hvað hefði gerst ef Kólumbus hefði siglt fram af hinni flötu jörð eða hvernig bandarísku borgarastyrjöldinni hefði lyktað ef herlið suðurríkjanna hefði verið vopnað hríðskotabyssum nútímans.
Allt má þetta til sanns vegar færa. Samt sem áður má líka færa fyrir því rök að við verðum alltaf að hafa í huga það sem hefði getað gerst. Það hjálpar okkur til þess að skilja betur hvers vegna svo fór sem fór hverju sinni, hvers vegna fólk ákvað eitt frekar en annað, hvað það hélt að myndi gerast í framtíðinni (sem er okkar fortíð) og ekki síst hve miklu máli tilviljanir skipta um þróun sögunnar. Margir þeirra sem finna hugleiðingum um það sem hefði getað gerst flest til foráttu falla einmitt í þann pytt að þykja söguleg þróun óumflýjanleg að mestu leyti, að allt hlyti að hafa farið eins og það fór þegar vel sé að gáð.
Slík nauðhyggja er eins slæm og kviksyndi hinna óteljandi kosta. Jafnvægislistin er einfaldlega sú að ana ekki út í allt það sem hefði getað gerst og meira til. Fólk þarf að leita að því líklega en horfa fram hjá því fáránlega eins og notkun nútímahríðskotariffla á nítjándu öld eða Kólumbusi fallandi fram af hinni flötu jörð. Þannig hugleiðingar hafa kannski skemmtanagildi en eiga lítið skylt við sagnfræði – nema þá að menn noti Kólumbusarsöguna, svo að það dæmi sé notað áfram, til að sýna hvað fjöldi fólks óttaðist á þeim tíma að gæti gerst.
Að sama skapi er lítið vit í að spinna langan söguþráð út frá breytingu aftur í fornöld. Vissulega geta menn velt vöngum yfir orrustum Persa og Grikkja og komist að því að þær hefðu getað farið á annan veg en raun varð á. En hugleiðingar um stöðu mála tveimur árþúsundum síðar geta aldrei orðið neitt annað en misgáfulegar getgátur. Sama gildir um ástand mála á Íslandi í dag ef Þjóðverjar hefðu gripið landið fyrir rúmum 70 árum. Við getum dregið skynsamlegar ályktanir um það sem hefði getað gerst fyrst eftir þá atlögu en alls ekki slegið neinu föstu um það hvernig þjóðfélagið væri um okkar daga.
Snúum okkur þá aftur að spurningunni stóru um hernám Þjóðverja á Íslandi sumarið 1940. Ekki leikur vafi á að Íslendingar óttuðust þýska innrás. Árla morguns 10. maí, þegar herskip sáust sigla inn á Sundin undan Reykjavík, spurði fólk sig hvort þau væru þýsk eða bresk. Fyrir liggur líka að Hitler og hans herráð hugleiddi þann kost að ná Íslandi á sitt vald eftir að Bretar urðu fyrri til. Út á það gekk ítarleg hernaðaraðgerð, Íkarus-áætlunin. Með innrásarflota orrustu-, farþega- og kaupskipa hefðu komið þrautþjálfaðir fjallahermenn sem hefðu örugglega yfirbugað hið vanbúna breska hernámslið hér á landi. Vel má vera að fjöldi Íslendinga hefði fallið í bardögum og þjóðin búið við þröngan kost, jafnvel hungur, því að tekið hefði fyrir innflutning á kolum, olíu og ýmsum nauðsynlegum vistum.
Kannski hefðu Bretar stökkt Þjóðverjum á flótta með tíð og tíma, en kannski ekki. Við megum ekki gleyma því að fyrstu ár seinni heimsstyrjaldarinnar mátti ekki á milli sjá hvorir bæru sigur úr býtum, Þjóðverjar og Öxulveldin eða meginandstæðingar þeirra, fyrst Bretar einir og síðan Bandaríkin og Sovétríkin. Sagan er framar öðru röð tilviljana og atburða þar sem nær allt hefði nær alltaf getað farið allt öðruvísi en raun bar vitni. Það er einmitt það sem gerir hana svo heillandi.
Netheimildir:
Alexander Demandt (þýð úr þýsku Colin D. Thomas), History That Never Happened: A Treatise on the Question, What Would Have Happend If...? (London: McFarland & Company, 3. útg. 1993).
Martin Bunzl, ‘Counterfactual History: A User’s Guide’, American Historical Review, 109/3, (2004), 845–858.
Aviezer Tucker, ‘Historiographical Counterfactuals and Historical Contingency’ (review essay), History and Theory 38/2 (2002), 264–276.
Bækur Þórs Whitehead um Ísland og síðari heimsstyrjöldina:
Ísland í hers höndum. (Reykjavík 2002).
Ísland í síðari heimsstyrjöld. Bretarnir koma. (Reykjavík 1995).
Ísland í síðari heimsstyrjöld. Milli vonar og ótta. (Reykjavík 1990).
Ísland í síðari heimsstyrjöld. Ófriður í aðsigi. (Reykjavík 1980).
Ísland í síðari heimsstyrjöld. Stríð fyrir ströndum. (Reykjavík 1985).
Mynd:
Hitler á Þingvöllum | Lemúrinn. Tölvugerð mynd Ólafs Gunnars Guðlaugssonar sem birtist í þriðja tölublaði SKAKKA TURNSINS árið 2008. (Sótt 17. 4. 2013).
Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hvað ef Þjóðverjar hefðu verið á undan að hernema Ísland? Væri menning okkar og kannski mál öðruvísi í dag? Auðvitað var mikið sem að til dæmis Ameríkanarnir komu með sér og breyttu hjá okkur og kannski urðu til slettur sem voru eða eru notaðar í daglegu tali, en hvað ef það hefðu verið Þjóðverjar?
Guðni Th. Jóhannesson. „Hvað ef Þjóðverjar hefðu verið á undan að hernema Ísland, væri þá menning okkar og kannski mál öðruvísi í dag?“ Vísindavefurinn, 30. apríl 2013, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58483.
Guðni Th. Jóhannesson. (2013, 30. apríl). Hvað ef Þjóðverjar hefðu verið á undan að hernema Ísland, væri þá menning okkar og kannski mál öðruvísi í dag? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58483
Guðni Th. Jóhannesson. „Hvað ef Þjóðverjar hefðu verið á undan að hernema Ísland, væri þá menning okkar og kannski mál öðruvísi í dag?“ Vísindavefurinn. 30. apr. 2013. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58483>.