Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Belgía er ríki í Vestur-Evrópu. Landið á landamæri að Þýskalandi í vestri, Frakklandi í suðri, Hollandi í norðri og Lúxemborg í vestri en tvö síðastnefndu eru hluti Niðurlanda sem Belgía er einnig hluti af.
Dökki bletturinn á myndinni sýnir legu Belgíu í Evrópu.
Í Belgíu er þingbundin konungsstjórn og heitir höfuðborgin Brussel. Landið skiptist í þrjá hluta, tvo meginhluta ásamt litlu svæði í kringum Brussel. Norðurhlutinn nefnist Flæmingjaland (Flandern) og þar er töluð hollenska. Einnig er þar töluð flæmska sem er hollensk mállýska. Suðurhlutinn nefnist Vallónía en þar er töluð franska. Í austurhluta Vallóníu er töluð þýska enda liggur sá hluti að Þýskalandi. Auk þýsku, frönsku og hollensku sem eru ríkismál er fimm meginmállýskur að finna í Belgíu.
Sambandsríki Belgíu. Það bláa er Brussel, það gula Flæmingjaland, og það rauða Vallónía.
Belgía er ekki stórt land, einungis 30.528 km2, tæpur þriðjungur af Íslandi, og búa þar um 10,5 milljónir manna. Um það bil 75% þjóðarinnar aðhyllist rómversk-katólska trú, 1% er mótmælendatrúar og tæp 4% múslímar. Trúlausir eru um 20%. Gjaldmiðillinn er evra en á undan henni notuðu Belgar belgíska franka. Nokkrir frægir vísindamenn eins og Andreas Vesalius (1514-1564) og kortagerðarmaðurinn Gerardus Mercator (1512-1594) eru frá Belgíu.
Belgía er eitt af stofnlöndum Evrópusambandsins (ESB) en bæði ESB og Atlantshafsbandalagið (NATO) eiga höfuðstöðvar í Brussel. Belgía er meðal annars fræg fyrir súkkulaði og bygginguna Atomium. Hún var hönnuð af André Waterceyn og reist fyrir heimssýninguna árið 1958. Byggingin myndar líkan af einni grunneiningu járnkristalls.
Atomium í Belgíu, bygging sem André Waterceyn teiknaði og sýnir járnkristalgrind í margfaldri stærð. Byggð 1958.
Á svæðinu þar sem Belgía nútímans liggur var skattland sem Rómverjar stofnuðu eftir að hafa rekið þá þjóðflokka sem fyrir voru í burtu. Þeir gáfu skattlandinu nafnið Gallia Belgica. Síðan hefur landsvæðinu verið stjórnað af mörgum þjóðum, meðal annars af Spánverjum frá 1648 til ársins 1794 en þá tóku Hollendingar við stjórninni. Belgía lýsti yfir sjálfstæði frá Hollendingum árið 1830 og ári síðar þann 21. júlí 1831 var Leopold I krýndur konungur. Er sá dagur nú þjóðhátíðardagur Belgíu. Helsti munurinn á Hollandi og Belgíu í dag er trúin en þrefalt fleiri katólikkar eru í Belgíu en Hollandi. Auk þess hefur katólikkum í Hollandi fækkað um tæpan helming frá því á áttunda áratugnum.
Meðal merkra sögulegra atburða sem hafa átt sér stað í Belgíu er orrustan um Waterloo árið 1815 þar sem Napóleon Bónaparte galt afhroð. Þann 10. maí 1940 réðust nasistar inn í Belgíu, Holland og Lúxemborg en sama dag gengu Bretar á land hérlendis. Árið 2000 héldu Belgar ásamt Hollendingum Evrópukeppnina í knattspyrnu.
Heimildir og myndir
Hringur Ásgeir Sigurðarson. „Hvað geturðu sagt mér um Belgíu, svo sem helstu borgir, trúarbrögð og stjórnarfar?“ Vísindavefurinn, 10. júní 2008, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=17052.
Hringur Ásgeir Sigurðarson. (2008, 10. júní). Hvað geturðu sagt mér um Belgíu, svo sem helstu borgir, trúarbrögð og stjórnarfar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=17052
Hringur Ásgeir Sigurðarson. „Hvað geturðu sagt mér um Belgíu, svo sem helstu borgir, trúarbrögð og stjórnarfar?“ Vísindavefurinn. 10. jún. 2008. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=17052>.