Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hver var Jón Árnason og hvað gerði hann merkilegt?

Rósa Þorsteinsdóttir

Jón Árnason er eflaust þekktastur fyrir að vera frumkvöðull í söfnun þjóðsagna á 19. öld. Segja má að þjóðsagnasöfnunin hafi þó aðeins verið hluti af stærri heild, sjálfstæðisbaráttu og hreyfingu sem miðaði að því að skapa grundvöll þjóðmenningar og endurspeglast meðal annars í baráttu Jóns, vinar hans Sigurðar Guðmundssonar málara og fleiri ungra manna fyrir stofnun þjóðleikhúss, þjóðminjasafns og tilurð þjóðbúnings.

Jón Árnason (1819-1888).

Jón fæddist 17. ágúst 1819 á Hofi á Skagaströnd. Hann var sonur séra Árna Illugasonar (1754-1825), sem var prestur þar frá 1796 til 1825, og þriðju konu hans, Steinunnar Ólafsdóttur (1789-1864). Árni lést þegar Jón var á sjöunda ári og Steinunn var eftir það lengi ráðskona á Syðri-Ey og Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu. Jón var fyrst með móður sinni og hún kenndi honum að lesa en síðan var hann settur til mennta og lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla í maí 1843. Hann varð síðan heimiliskennari hjá Sveinbirni Egilssyni, síðar rektor skólans, á Eyvindarstöðum á Álftanesi og kenndi sonum hans undir skóla. Jón flutti með fjölskyldunni til Reykjavíkur og hélt áfram heimakennslunni og aðstoð við Sveinbjörn í ritstörfum hans, jafnframt því að sinna stundakennslu og bókavörslu og raunar ýmsum öðrum störfum. Jón kvæntist Katrínu Þorvaldsdóttur Sívertsen (1829–1895) úr Hrappsey 25. ágúst 1866. Þau áttu einn son, Þorvald, sem dó ungur. Jón lést 4. september 1888.

Landsbókavörður

Jón var ráðinn bókavörður Stiftsbókasafnsins árið 1848 en þá var það til húsa á Dómkirkjuloftinu. Þegar safnið flutti síðan í hið nýreista Alþingishús árið 1881 fékk það titilinn Landsbókasafn Íslands og Jón varð fyrsti Landsbókavörður Íslands. Hann gegndi því starfi til ársins 1887. Fyrstu árin áttu laun hans að vera greiðsla frá lánþegum safnsins en þar sem fæstir þeirra borguðu varð kaupið aldrei hátt. Jón lét sér þó annt um safnið enda hafði hann bæði mætur á bókum og var glöggur á þær. Á starfstíma hans stækkaði safnið verulega en mest var það vegna bóka- og handritagjafa. Á bréfaskiptum Jóns og vina hans út um allt land sést að hann var óþreytandi við að biðja um bækur handa safninu.

Reykjavík um 1869. Dómkirkjan er fyrir miðri mynd en þar starfaði Jón Árnason sem bókavörður Stiftsbókasafnsins sem síðar varð Landsbókasafn.

Þjóðminjavörður

Jón bað fólk einnig að senda forngripi til forngripasafnsins en hann átti nokkurn þátt í því að Forngripasafn Íslands var stofnað árið 1863. Þann 24. febrúar það ár færði Jón Árnason stiftsyfirvöldum bréf frá Helga Sigurðssyni á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi þar sem hann býðst til að gefa Íslandi 15 gripi með þeirri ósk „að þeir verði fyrsti vísir til safns íslenskra fornmenja“ en íslenskir forngripir höfðu áður mikið verið fluttir úr landi. Gjöfin var þegin og Jóni Árnasyni falin umsjón safnsins en hálfu ári seinna fékk hann að ráða Sigurð Guðmundsson málara (1833-1874) sem annan umsjónarmann. Sigurður hafði fyrstur sett fram hugmynd um stofnun forngripasafns og saman veittu þeir safninu forstöðu þar til Sigurður lést 1874. Jón gegndi starfi forstöðumanns til ársins 1881 en það var ekki fyrr en 1911 sem nafni safnsins var breytt í Þjóðminjasafn Íslands.

Biskupsritari

Það var árið 1856 sem Jón gerðist skrifari biskups. Í því starfi gekkst hann fyrir því að biskup sendi öllum prestum og próföstum landsins bréf þar sem farið var fram á að þeir létu gera skrá yfir allar bækur eldri en frá 1781 sem til væru í sóknum þeirra. Þessar skrár eru nú varðveittar í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns en þær hafa vafalaust gefið Jóni góða yfirsýn yfir fágætar bækur og hjálpað honum við bókaöflun bæði fyrir safnið og sjálfan sig. Starfi biskupsskrifara gegndi Jón til ársins 1867 er hann gerðist umsjónarmaður við latínuskólann.

Umsjónarmaður

Í starfi umsjónarmanns Lærða skólans í Reykjavík fólst bæði bókavarsla og umsjón með nemendum sem bjuggu í skólanum auk þess sem nú myndi vera kölluð fjármálastjórn. Þessu starfi gegndi Jón til ársins 1879, er það var lagt niður, en þá sendu íslenskir námsmenn í Kaupmannahöfn honum fallegt ávarp sem sýndi virðingu þeirra og þakklæti. Margir skólapiltar urðu hjálparmenn Jóns við þjóðsagnasöfnun hans, bæði á meðan þeir stunduðu nám og eftir að þeir voru orðnir embættismenn (oftast prestar) víða um landið.

Um þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar er fjallað í svari við spurningunni Hvenær fór Jón Árnason að safna þjóðsögum?

Heimildir og myndir:

Höfundur

Rósa Þorsteinsdóttir

rannsóknarlektor á þjóðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

9.5.2017

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Rósa Þorsteinsdóttir. „Hver var Jón Árnason og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2017. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73828.

Rósa Þorsteinsdóttir. (2017, 9. maí). Hver var Jón Árnason og hvað gerði hann merkilegt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73828

Rósa Þorsteinsdóttir. „Hver var Jón Árnason og hvað gerði hann merkilegt?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2017. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73828>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Jón Árnason og hvað gerði hann merkilegt?
Jón Árnason er eflaust þekktastur fyrir að vera frumkvöðull í söfnun þjóðsagna á 19. öld. Segja má að þjóðsagnasöfnunin hafi þó aðeins verið hluti af stærri heild, sjálfstæðisbaráttu og hreyfingu sem miðaði að því að skapa grundvöll þjóðmenningar og endurspeglast meðal annars í baráttu Jóns, vinar hans Sigurðar Guðmundssonar málara og fleiri ungra manna fyrir stofnun þjóðleikhúss, þjóðminjasafns og tilurð þjóðbúnings.

Jón Árnason (1819-1888).

Jón fæddist 17. ágúst 1819 á Hofi á Skagaströnd. Hann var sonur séra Árna Illugasonar (1754-1825), sem var prestur þar frá 1796 til 1825, og þriðju konu hans, Steinunnar Ólafsdóttur (1789-1864). Árni lést þegar Jón var á sjöunda ári og Steinunn var eftir það lengi ráðskona á Syðri-Ey og Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu. Jón var fyrst með móður sinni og hún kenndi honum að lesa en síðan var hann settur til mennta og lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla í maí 1843. Hann varð síðan heimiliskennari hjá Sveinbirni Egilssyni, síðar rektor skólans, á Eyvindarstöðum á Álftanesi og kenndi sonum hans undir skóla. Jón flutti með fjölskyldunni til Reykjavíkur og hélt áfram heimakennslunni og aðstoð við Sveinbjörn í ritstörfum hans, jafnframt því að sinna stundakennslu og bókavörslu og raunar ýmsum öðrum störfum. Jón kvæntist Katrínu Þorvaldsdóttur Sívertsen (1829–1895) úr Hrappsey 25. ágúst 1866. Þau áttu einn son, Þorvald, sem dó ungur. Jón lést 4. september 1888.

Landsbókavörður

Jón var ráðinn bókavörður Stiftsbókasafnsins árið 1848 en þá var það til húsa á Dómkirkjuloftinu. Þegar safnið flutti síðan í hið nýreista Alþingishús árið 1881 fékk það titilinn Landsbókasafn Íslands og Jón varð fyrsti Landsbókavörður Íslands. Hann gegndi því starfi til ársins 1887. Fyrstu árin áttu laun hans að vera greiðsla frá lánþegum safnsins en þar sem fæstir þeirra borguðu varð kaupið aldrei hátt. Jón lét sér þó annt um safnið enda hafði hann bæði mætur á bókum og var glöggur á þær. Á starfstíma hans stækkaði safnið verulega en mest var það vegna bóka- og handritagjafa. Á bréfaskiptum Jóns og vina hans út um allt land sést að hann var óþreytandi við að biðja um bækur handa safninu.

Reykjavík um 1869. Dómkirkjan er fyrir miðri mynd en þar starfaði Jón Árnason sem bókavörður Stiftsbókasafnsins sem síðar varð Landsbókasafn.

Þjóðminjavörður

Jón bað fólk einnig að senda forngripi til forngripasafnsins en hann átti nokkurn þátt í því að Forngripasafn Íslands var stofnað árið 1863. Þann 24. febrúar það ár færði Jón Árnason stiftsyfirvöldum bréf frá Helga Sigurðssyni á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi þar sem hann býðst til að gefa Íslandi 15 gripi með þeirri ósk „að þeir verði fyrsti vísir til safns íslenskra fornmenja“ en íslenskir forngripir höfðu áður mikið verið fluttir úr landi. Gjöfin var þegin og Jóni Árnasyni falin umsjón safnsins en hálfu ári seinna fékk hann að ráða Sigurð Guðmundsson málara (1833-1874) sem annan umsjónarmann. Sigurður hafði fyrstur sett fram hugmynd um stofnun forngripasafns og saman veittu þeir safninu forstöðu þar til Sigurður lést 1874. Jón gegndi starfi forstöðumanns til ársins 1881 en það var ekki fyrr en 1911 sem nafni safnsins var breytt í Þjóðminjasafn Íslands.

Biskupsritari

Það var árið 1856 sem Jón gerðist skrifari biskups. Í því starfi gekkst hann fyrir því að biskup sendi öllum prestum og próföstum landsins bréf þar sem farið var fram á að þeir létu gera skrá yfir allar bækur eldri en frá 1781 sem til væru í sóknum þeirra. Þessar skrár eru nú varðveittar í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns en þær hafa vafalaust gefið Jóni góða yfirsýn yfir fágætar bækur og hjálpað honum við bókaöflun bæði fyrir safnið og sjálfan sig. Starfi biskupsskrifara gegndi Jón til ársins 1867 er hann gerðist umsjónarmaður við latínuskólann.

Umsjónarmaður

Í starfi umsjónarmanns Lærða skólans í Reykjavík fólst bæði bókavarsla og umsjón með nemendum sem bjuggu í skólanum auk þess sem nú myndi vera kölluð fjármálastjórn. Þessu starfi gegndi Jón til ársins 1879, er það var lagt niður, en þá sendu íslenskir námsmenn í Kaupmannahöfn honum fallegt ávarp sem sýndi virðingu þeirra og þakklæti. Margir skólapiltar urðu hjálparmenn Jóns við þjóðsagnasöfnun hans, bæði á meðan þeir stunduðu nám og eftir að þeir voru orðnir embættismenn (oftast prestar) víða um landið.

Um þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar er fjallað í svari við spurningunni Hvenær fór Jón Árnason að safna þjóðsögum?

Heimildir og myndir:

...