Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað eru mörg gos þekkt í Bárðarbungu og hefur orðið mikið tjón af þeim?

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson

Eldstöðvakerfið sem kennt er við Bárðarbungu og Veiðivötn er eitt það stærsta á landinu, um 190 kílómetra langt. Miðhluti þess er undir norðvestanverðum Vatnajökli. Stór megineldstöð, Bárðarbunga, og önnur minni sunnan hennar, Hamarinn, eru undir jöklinum. Í Bárðarbungu er stór askja, barmafull af ís, allt að 850 metra þykkum.

Hluti úr þyngdarkorti af vestanverðum Vatnajökli og nágrenni (Magnús T. Guðmundsson og Þórdís Högnadóttir, 2007). Útlínur eldstöðvakerfa undir Vatnajökli eru sýndar með svörtum brotnum línum, öskjur með hvítum og útlínur jökulsins með þykkum bláum línum. Bláa svæðið undir norðvestanverðum Vatnajökli er þyngdarlægð, en Bárðarbunga kemur fram sem greinileg þyngdarhæð (græn) vegna eðlisþyngra bergs í rótum hennar.

Á sögulegum tíma er vitað um 27 gos innan eldstöðvakerfisins, flest á jökulþöktum hluta þess. Ekki er vitað með vissu hvar gossprungur undir jöklinum liggja, en fjögur sprungugos hafa orðið utan jökuls. Tvö flæðigos, þegar Tröllahraun (1862-1864) og Frambruni (líklega 13. öld) runnu, og tvö stór tætigos í Vatnaöldum (um 870) og Veiðivötnum (um 1477) sem ollu gjóskufalli á helmingi landsins. Framleiðsla gosefna á þeim tíma er talin hafa verið um tíu rúmkílómetrar af föstu bergi. Samkvæmt því telst kerfið vera það fjórða virkasta frá landnámi. Aðeins Grímsvötn, Katla og Hekla hafa verið stórvirkari. Stór forsöguleg hraun eiga upptök sín á sprungureininni suðvestan og norðan Vatnajökuls, þar á meðal Þjórsárhraunið mikla (um 8600 ára gamalt) sem rann til sjávar við suðurströndina, og hraun frá Trölladyngju.

Tjón hefur verið minna en ætla mætti út frá stærð og tíðni gosa vegna fjarlægðar frá byggð. Endurtekin hlaup í Jökulsá á fjöllum af völdum eldgosa í jökli upp af Dyngjuhálsi snemma á 18. öld spilltu búskaparskilyrðum í Kelduhverfi og Öxarfirði. Hamfarahlaup á forsögulegum tíma grófu Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur. Fimm stórar vatnsaflsvirkjanir, sem framleiða stóran hluta af raforku landsmanna, gætu orðið fyrir truflunum og skemmdum vegna eldgosa á suðurhluta kerfisins.

Mynd:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, bls. 255.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Útgáfudagur

19.8.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað eru mörg gos þekkt í Bárðarbungu og hefur orðið mikið tjón af þeim?“ Vísindavefurinn, 19. ágúst 2014. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=67911.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson. (2014, 19. ágúst). Hvað eru mörg gos þekkt í Bárðarbungu og hefur orðið mikið tjón af þeim? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67911

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Páll Einarsson og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað eru mörg gos þekkt í Bárðarbungu og hefur orðið mikið tjón af þeim?“ Vísindavefurinn. 19. ágú. 2014. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67911>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru mörg gos þekkt í Bárðarbungu og hefur orðið mikið tjón af þeim?
Eldstöðvakerfið sem kennt er við Bárðarbungu og Veiðivötn er eitt það stærsta á landinu, um 190 kílómetra langt. Miðhluti þess er undir norðvestanverðum Vatnajökli. Stór megineldstöð, Bárðarbunga, og önnur minni sunnan hennar, Hamarinn, eru undir jöklinum. Í Bárðarbungu er stór askja, barmafull af ís, allt að 850 metra þykkum.

Hluti úr þyngdarkorti af vestanverðum Vatnajökli og nágrenni (Magnús T. Guðmundsson og Þórdís Högnadóttir, 2007). Útlínur eldstöðvakerfa undir Vatnajökli eru sýndar með svörtum brotnum línum, öskjur með hvítum og útlínur jökulsins með þykkum bláum línum. Bláa svæðið undir norðvestanverðum Vatnajökli er þyngdarlægð, en Bárðarbunga kemur fram sem greinileg þyngdarhæð (græn) vegna eðlisþyngra bergs í rótum hennar.

Á sögulegum tíma er vitað um 27 gos innan eldstöðvakerfisins, flest á jökulþöktum hluta þess. Ekki er vitað með vissu hvar gossprungur undir jöklinum liggja, en fjögur sprungugos hafa orðið utan jökuls. Tvö flæðigos, þegar Tröllahraun (1862-1864) og Frambruni (líklega 13. öld) runnu, og tvö stór tætigos í Vatnaöldum (um 870) og Veiðivötnum (um 1477) sem ollu gjóskufalli á helmingi landsins. Framleiðsla gosefna á þeim tíma er talin hafa verið um tíu rúmkílómetrar af föstu bergi. Samkvæmt því telst kerfið vera það fjórða virkasta frá landnámi. Aðeins Grímsvötn, Katla og Hekla hafa verið stórvirkari. Stór forsöguleg hraun eiga upptök sín á sprungureininni suðvestan og norðan Vatnajökuls, þar á meðal Þjórsárhraunið mikla (um 8600 ára gamalt) sem rann til sjávar við suðurströndina, og hraun frá Trölladyngju.

Tjón hefur verið minna en ætla mætti út frá stærð og tíðni gosa vegna fjarlægðar frá byggð. Endurtekin hlaup í Jökulsá á fjöllum af völdum eldgosa í jökli upp af Dyngjuhálsi snemma á 18. öld spilltu búskaparskilyrðum í Kelduhverfi og Öxarfirði. Hamfarahlaup á forsögulegum tíma grófu Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur. Fimm stórar vatnsaflsvirkjanir, sem framleiða stóran hluta af raforku landsmanna, gætu orðið fyrir truflunum og skemmdum vegna eldgosa á suðurhluta kerfisins.

Mynd:
  • Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, bls. 255.


Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

...