Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver var Jón Helgason og hvert var framlag hans til íslenskra fræða?

Gunnlaugur Ingólfsson

Jón Helgason (1899-1986) var bráðger á unga aldri, lauk snemma öllum æðstu lærdómsprófum og lifði svo langa ævi að starfsferillinn spannaði nærfellt sjötíu ár. Hann vann mörg og stór verk á flestum sviðum íslenskra fræða allt frá fyrsta skeiði íslenskra mennta og fram á 19. öld. Hann bjó í Kaupmannahöfn nánast allan sinn starfsaldur og var síðastur Íslendinga í langri röð manna sem þar starfaði í íslenskum fræðum.

Jón Helgason fæddist á Rauðsgili í Hálsasveit í Borgarfirði 30. júní árið 1899. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1916 og hélt sama ár til Kaupmannahafnar og lagði stund á norræn fræði og lauk magistersprófi í þeirri grein árið 1923. Þremur árum síðar lauk hann doktorsprófi við Háskóla Íslands með ritinu Jón Ólafsson frá Grunnavík. Hann hafði kennarastarf með höndum við háskólann í Osló 1926–27. Hann var forstöðumaður safns Árna Magnússonar í Höfn 1927–57 og síðan forstöðumaður Árna Magnússonar stofnunarinnar til starfsloka. Hann var enn fremur prófessor í íslenskri tungu og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla frá 1929. Jón Helgason lést í Kaupmannahöfn 19. janúar 1986.

Jón Helgason fékkst snemma við yrkingar og varð með tímanum eitt merkasta ljóðskáld þjóðarinnar. Hann gaf út ljóðabókina Úr landsuðri. Nokkur kvæði árið 1939. Hún var gefin út öðru sinni „með úrfellingum og viðaukum“ 1948 og síðan endurprentuð tvisvar. Enn fremur þýddi Jón kvæði eftir erlenda höfunda forna og nýja og gaf út tvær bækur með ljóðaþýðingum. Hann orti hefðbundið, „… agaði mál sitt við stuðlanna þrískiptu grein“ (Úr „Ég kom þar“ eftir Jón Helgason). Nokkur ljóð hans um land og átthaga, störf og forn fræði eru alkunna: Áfangar, Á Rauðsgili, Í Árnasafni, Til höfundar Hungurvöku.

Jón Helgason gaf út fjölmörg rannsóknar- og fræðirit í bókarformi á ferli sínum. Hið fyrsta var áðurnefnt doktorsrit hans um Jón Ólafsson frá Grunnavík. Þegar á fyrstu misserum náms síns við Hafnarháskóla hóf Jón rannsóknir á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar og birtist ávöxtur þeirra rannsókna árið 1929 er hann gaf út ritið Málið á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Bæði þessi rit voru gefin út af Hinu íslenska fræðafélagi í Kaupmannahöfn.

Þó að Jón Helgason sé þekktastur á alþjóðavettvangi fyrir starf sitt að textaútgáfum eftir handritum kom hann miklu víðar við í íslenskum fræðum. Segja má að hann hafi sinnt öllum öldum í mál- og menningarsögu Íslands. Í ritsafni Hins íslenska fræðafélags í Höfn gaf hann út bókina Hrappseyjarprentsmiðja árið 1928 og Kvæði Bjarna Thorarensens gaf hann út 1935 í sömu ritröð. Árið 1942 kom bókin Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Síðasta verkið sem Jón gaf út í safni Fræðafjelagsins var Bréf Bjarna Thorarensens. Annað bindi þessa síðasta verks kom út að Jóni látnum 1986 í umsjá Agnete Loth. Öll eru verk þessi hvert öðru ólík. Kvæði Bjarna og Bréf, svo og Úr bréfabókum Brynjólfs biskups eru textaútgáfur eftir handritum. Ritið um Jón Ólafsson er rækileg ævisaga þar sem gerð er grein fyrir öllum ritum sem eftir hann liggja, efni þeirra rakið og dómur lagður á gildi þeirra. Þetta er ekkert áhlaupaverk því að Jón Grunnvíkingur er einhver afkastamesti rithöfundur á íslenska tungu en aldrei var neitt gefið út eftir hann á prenti í lifanda lífi. Í ritinu Hrappseyjarprentsmiðja gerir Jón grein fyrir útgáfustarfsemi prentsmiðjunnar í Hrappsey sem starfaði á árunum 1773–94. Málið á Nýja testamenti Odds er rækileg mállýsing á hinni fyrstu bók sem prentuð var á íslenska tungu. Lýst er stafsetningu, beygingum og setningafræði með samanburði við eldri og yngri málstig. Nærfellt hálf bókin er orðasafn þar sem einkum eru tekin orð og merkingar sem ekki er að finna í fornmálinu. Með þessum verkum innti Jón Helgason af höndum umtalsvert fræðistarf og setti fordæmi þar sem vönduð vinnubrögð og nákvæmni í meðferð heimilda sátu í fyrirrúmi.

Jón Helgason bjó í Kaupmannahöfn næstum allan sinn starfsaldur. Myndin sýnir Kaupmannahöfn um aldamótin 1900 eða nokkru áður en Jón flyst þangað.

Eftir síðari heimsstyrjöld beitti Jón sér fyrir því innan vébanda Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn að hafin yrði útgáfa á íslenskum ritum frá síðari öldum. Þessi útgáfa nefndist Íslenzk rit síðari alda. Í þessu ritsafni komu út ein sjö rit, fjögur búin til prentunar af Jóni sjálfum: Ármanns rímur eftir Jón Guðmundsson lærða og Ármanns þáttur eftir Jón Þorláksson (1948); Ludvig Holberg: Nikulás Klím, íslensk þýðing eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík (1948); Móðars rímur og Móðars þáttur (1950) og Gamall kveðskapur (1979). Önnur rit í ritsafni þessu voru gefin út af öðrum en með atbeina og leiðsögn Jóns eins og glögglega má sjá í formálsorðum útgefenda. Enn fremur lét hann gera eftirmyndir, ljósprentanir, tveggja kvæðahandrita frá 17. öld og samdi rækilegan inngang að hvorutveggja. Með starfi sínu að þessu ritsafni hefur Jón lagt fram ótrúlegan skerf til rannsókna á íslenskum bókmenntum síðari alda, það er frá því upp úr siðaskiptum og fram um miðja 18. öld.

Strax á fyrstu misserum námsáranna í Kaupmannahöfn tók Jón að fást við rannsóknir og útgáfu miðaldatexta eftir handritum. Fyrsta viðfangsefnið var vinna við útgáfu Ólafs sögu helga, Den store Saga om Olaf den Hellige eða Ólafs saga helga hin sérstaka, sem norski fræðimaðurinn Oscar Albert Johnsen hafði forgöngu um. Haustið 1917 var Johnsen í Kaupmannahöfn og ráðfærði sig við Finn Jónsson um tilhögun útgáfunnar. Að ráði Finns fékk Johnsen Jón Helgason til liðs við sig. Eins og nafnið bendir til er saga þessi engin smásmíði og liðu rúmir tveir áratugir þangað til útgáfan var öll á enda kljáð árið 1941 og var Jón þá orðinn meðútgefandi Johnsens. Inngangur Johnsens að útgáfunni er afar fróðlegur og sýnir vel þátt Jóns í verkinu, hvernig hann byrjar sem efnilegur stúdent og að verkalokum öllum fræðimönnum fremri lífs og liðnum:

Gjennem årene har professor Helgason også erhvervet en sakkyndighet i behandlingen av håndskriftene som er meget sjelden i nutiden og neppe heller er overgått av noen av de fremste autoriteter på dette område i eldre tid, en Arne Magnusson, en dr. Kålund eller en Finnur Jónsson. (Oscar Albert Johnsen 1941: XIX–XX).

Þessu mikla verki sinnti Jón með fram mörgum öðrum störfum eins og lýst er hér á undan svo að það er ærið starf sem Jón hefur leyst af hendi á þeim aldarfjórðungi sem liðinn var frá því að hann kom að Ólafs sögu verkinu. Fyrsta sjálfstæða handritaútgáfa Jóns var hins vegar Heiðreks saga (1924) sem hann gaf út fyrir fornritafélagið Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (stofnað 1879). Jón var um árabil formaður þessa félags og kom sjálfur að fleiri útgáfum, Hákonar sögu Ívarssonar (ásamt Jakobi Benediktssyni) 1952 og Håndskriftet AM 445 c, I, 4to 1956.

Árið 1930 hóf útgefandinn Ejnar Munksgaard í Kaupmannahöfn að gefa út íslensk miðaldahandrit í ljósprentuðum útgáfum, Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi, og sá Jón Helgason um útgáfu þriggja þeirra og ritaði inngang. Þessum flokki var lokið 1956, en árið 1954 hóf Munksgaard útgáfu nýs flokks, Manuscripta Islandica, sem Jón sá einn um að öllu leyti og ritaði inngang að hverju bindi. Árið 1958 hóf forlagið Rosenkilde og Bagger ritröð með ljósprentunum íslenskra handrita, Early Icelandic Manuscripts in Facsimile, og ritstýrði Jón fyrstu fimmtán bindunum.

Á vegum forstöðunefndar Árnasafns (Kommissionen for det Arnamagnæanske Legat) gaf Jón út Íslenzk miðaldakvæði í tveimur bindum 1936 og 1938. Þetta var hugsað sem framhald af Den norsk-islandske skjaldedigtning sem Finnur Jónsson gaf út 1908–15. En því miður auðnaðist Jóni ekki að leiða þá útgáfu til lykta.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík. Jón Helgason var forstöðumaður stofnunarinnar í Kaupmannahöfn í 44 ár.

Að frumkvæði Jóns Helgasonar samþykkti forstöðunefnd Árnasafns árið 1937 að stofna til útgáfuraðar sem hlaut nafnið Bibliotheca Arnamagnæana. Jón varð ritstjóri þessa ritsafns frá upphafi til 1983 en frá 1976 voru Jonna Louis-Jensen og Peter Springborg meðritstjórar. Framan af komu þarna út textaútgáfur og var Háttalykill enn forni (1941) fyrsta ritið í þessum flokki sem Jón gaf út í félagi við norsku fræðakonuna Anne Holtsmark. Jón gaf sjálfur út tvö önnur bindi í þessari röð, bæði eftir Skúla Magnússon landfógeta: Beskrivelse af Gullbringu og Kjósar sýslur (1785) (1944) og Forsøg til en kort Beskrivelse af Island (1786) (1944). Þegar fram í sótti birtust þarna einnig rannsóknarritgerðir um ýmis efni íslenskra og norrænna fræða eftir höfunda af ýmsum þjóðlöndum. Jón ritstýrði öllu þessu til útgáfu, las verkin vandlega yfir, gagnrýndi og gerði tillögur til breytinga og fylgdi próförkum í prentsmiðju til enda. Sum bindin í Bibliotheca eru safn ritgerða eða smærri verka eftir ýmsa höfunda. Þessi bindi ritraðarinnar nefnast Opuscula. Jón var einnig ritstjóri þessara binda og á þar sjálfur ófáar ritsmíðar.

Upp úr miðjum sjötta áratug síðustu aldar var Árnasafn formlega gert að rannsóknarstofnun, Det arnamagnæanske institut, og var jafnframt veitt til starfseminnar fé sem munaði um. Þannig var hægt að halda áfram að gefa út fræðirit í ritröðinni Bibliotheca Arnamagnæana og enn fremur stofnaði Jón nýja ritröð sem eingöngu var ætluð textaútgáfum, Editiones Arnamagnæanæ, sem reyndar eru tvær eftir umfangi, Series A í stærra broti og Series B í minna broti. Jón var ritstjóri þessarar ritraðar og umsjónarmaður allra verka sem þar komu út á hans tíð. Sjálfur gaf hann þar út annað hefti Byskupa sagna sem hann hafði hafið útgáfu á löngu áður. Enn fremur gaf hann út í þessari röð (Series B) Íslenzk fornkvæði í átta bindum (1962–81). Aðrir útgefendur í þessari tvískiptu röð komu af mörgum þjóðlöndum austan hafs og vestan.

Um störf Jóns að textaútgáfum eftir handritum farast Stefáni Karlssyni svo orð:

Jón Helgason setti ekki fram nýjar aðferðafræðikenningar. Hann beitti þeirri vísindalegu aðferð í textarýni, sem byrjað var að nota á fyrri hluta 19. aldar, en hafði ekki verið beitt nema við fá íslensk handrit fyrr en á þessari öld og stundum með hæpnum árangri. Með flokkun handrita á grundvelli sameiginlegra villna er leitast við að komast að skyldleika þeirra, og þá fyrst er hægt að meta gildi mismunandi leshátta, hver þeirra sé líklegastur til þess að hafa verið í frumriti varðveittra handrita. Þessari aðferð beitti Jón af strangleika, en hann gerði sér um leið gleggri grein fyrir en margir aðrir að mjög oft verður ekki komist að upphaflegum texta með aðferðum textarýninnar, og því taldi hann vænlegast að fylgja eftir föngum einu handriti við prentun aðaltexta og birta fleiri texta saman, ef mismunur þeirra var umtalsverður. Mikilvægt var að kanna öll handrit, sem höfðu það ritverk að geyma sem að var unnið, og gera sem ljósasta grein fyrir einkennum hvers og eins, þannig að útgáfan yrði ekki hálfkák og leiddi ekki á villigötur. Vandvirkni Jóns og samviskusemi hans gagnvart þeim textum sem hann fékkst við og gagnvart lesendum valda því að þær útgáfur sem hann vann að eru afburða traustar og sjaldnast verður um bætt. (Stefán Karlsson 1986: 10).

Jón Helgason var prófessor við Hafnarháskóla og kenndi þar fjóra áratugi. Nemendur hans segja að kennslunni hafi fremur verið sinnt af kvöð en ástríðu, rannsóknir og ritstörf hafi verið honum allt. En persónuleikinn, fróðleiksmiðlunin og frásagnarhæfileikinn hafi verið slíkur að kennslustundirnar hafi oftar en ekki verið skemmtistundir. Hann samdi nokkur rit sem ætluð voru til stuðnings við háskólakennslu og voru notuð víðar en í Höfn. Tvö rit um bókmenntasögu gaf hann út, Norrøn litteraturhistorie (1934) og Norges og Islands digtning (1953; Nordisk kultur VIII). Hann gaf út nokkur hefti fornra texta til sömu nota í ritröðinni Nordisk filologi sem hann ritstýrði ásamt nokkrum öðrum norrænum fræðimönnum: Eddukvæði, dróttkvæði, sögukafla úr Landnámu og Hrafnkels sögu.

Ekki verður skilist við fræði- og ritstörf Jóns Helgasonar án þess að minnst sé á þau rit sem hann gaf út hér heima almenningi til fróðleiks og skemmtunar. Árið 1958 kom út á forlagi Máls og menningar bókin Handritaspjall þar sem íslenskur handritaforði, forn og nýr, er að marki kynntur íslenskum almenningi í fyrsta sinn. Tvær kviður fornar, Völundarkviða og Atlakviða með skýringum kom út 1962. Enn fremur Kviður af Gotum og Húnum: Hamdismál, Guðrúnarhvöt, Hlöðskviða með skýringum (1967). Í öllum þessum bókum, í aðfaraorðum, inngangi og skýringum, er ótrúlegur fróðleikur saman kominn settur fram á skýran hátt með frábæru orðfæri. Hér má enn fremur nefna bókina Ritgerðakorn og ræðustúfa sem Hafnarstúdentar gáfu út honum til heiðurs á sextugsafmæli hans 30. júní 1959. Ritgerðasmíð var reyndar ríkur þáttur í fræðistarfi Jóns. Auk þess sem hann birti greinar fyrir landa sína heima og erlendis birti hann fjölda greina um margvísleg efni í fræðatímaritum og afmælisritum. Þetta er þvílíkur sægur að ekki er vinnandi vegur að telja neitt að gagni hér. Verður að láta nægja að vísa til ritaskrár Jóns í þrennu lagi eftir Agnete Loth og fleiri.

Jóni Helgasyni var margvíslegur sómi sýndur fyrir fræðistörf sín. Hann var kjörinn félagi í öllum helstu vísindafélögum og akademíum á Norðurlöndum. Hann varð félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1930 og heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags 1951. Hann var enn fremur kjörinn heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1974.

Heimildir:
  • Við samantekt þessa hefur meðal annars verið stuðst við minningargreinar um Jón Helgason í reykvísku dagblöðunum, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum, 23. janúar 1986 en ríkastan stuðning hef ég haft af minningar- og æviþáttum eftir Stefán Karlsson (1986) og Ólaf Halldórsson (1997).
  • Oscar Albert Johnsen. 1941. Saga Ólafs konungs hins helga, Den store saga om Olav den hellige […] Utgitt for Kjeldeskriftfondet av Oscar Albert Johnsen og Jón Helgason. Oslo 1941.
  • Agnete Loth. 1969. Jón Helgason. Bibliografi. Udarbejdet af Agnete Loth. Rosenkilde og Bagger 1969.
  • Agnete Loth. 1991. Jón Helgason. Bibliografi 1980–1986. Opuscula IX. Bibliotheca Arnamagnæana XXXIX. København.
  • Ólafur Halldórsson. 1997. Jón Helgason. Andvari. Nýr Flokkur XXXIX. 122. ár. Hið íslenzka þjóðvinafélag 1997.
  • Stefán Karlsson. 1986. Jón Helgason prófessor. 1899–1986. Tímarit Máls og menningar 47. árg. 1. hefti feb. 1986. Bókmenntafélagið Mál og menning.
  • Thuesen, Karen og John Tietze. Jón Helgason. Bibliografi. 1969–1979. Opuscula VII. Bibliotheca Arnamagnæana XXXIV. København.

Myndir:

Höfundur

rannsóknardósent á orðfræðisviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

21.6.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gunnlaugur Ingólfsson. „Hver var Jón Helgason og hvert var framlag hans til íslenskra fræða?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2011. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=59991.

Gunnlaugur Ingólfsson. (2011, 21. júní). Hver var Jón Helgason og hvert var framlag hans til íslenskra fræða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59991

Gunnlaugur Ingólfsson. „Hver var Jón Helgason og hvert var framlag hans til íslenskra fræða?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2011. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59991>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Jón Helgason og hvert var framlag hans til íslenskra fræða?
Jón Helgason (1899-1986) var bráðger á unga aldri, lauk snemma öllum æðstu lærdómsprófum og lifði svo langa ævi að starfsferillinn spannaði nærfellt sjötíu ár. Hann vann mörg og stór verk á flestum sviðum íslenskra fræða allt frá fyrsta skeiði íslenskra mennta og fram á 19. öld. Hann bjó í Kaupmannahöfn nánast allan sinn starfsaldur og var síðastur Íslendinga í langri röð manna sem þar starfaði í íslenskum fræðum.

Jón Helgason fæddist á Rauðsgili í Hálsasveit í Borgarfirði 30. júní árið 1899. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1916 og hélt sama ár til Kaupmannahafnar og lagði stund á norræn fræði og lauk magistersprófi í þeirri grein árið 1923. Þremur árum síðar lauk hann doktorsprófi við Háskóla Íslands með ritinu Jón Ólafsson frá Grunnavík. Hann hafði kennarastarf með höndum við háskólann í Osló 1926–27. Hann var forstöðumaður safns Árna Magnússonar í Höfn 1927–57 og síðan forstöðumaður Árna Magnússonar stofnunarinnar til starfsloka. Hann var enn fremur prófessor í íslenskri tungu og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla frá 1929. Jón Helgason lést í Kaupmannahöfn 19. janúar 1986.

Jón Helgason fékkst snemma við yrkingar og varð með tímanum eitt merkasta ljóðskáld þjóðarinnar. Hann gaf út ljóðabókina Úr landsuðri. Nokkur kvæði árið 1939. Hún var gefin út öðru sinni „með úrfellingum og viðaukum“ 1948 og síðan endurprentuð tvisvar. Enn fremur þýddi Jón kvæði eftir erlenda höfunda forna og nýja og gaf út tvær bækur með ljóðaþýðingum. Hann orti hefðbundið, „… agaði mál sitt við stuðlanna þrískiptu grein“ (Úr „Ég kom þar“ eftir Jón Helgason). Nokkur ljóð hans um land og átthaga, störf og forn fræði eru alkunna: Áfangar, Á Rauðsgili, Í Árnasafni, Til höfundar Hungurvöku.

Jón Helgason gaf út fjölmörg rannsóknar- og fræðirit í bókarformi á ferli sínum. Hið fyrsta var áðurnefnt doktorsrit hans um Jón Ólafsson frá Grunnavík. Þegar á fyrstu misserum náms síns við Hafnarháskóla hóf Jón rannsóknir á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar og birtist ávöxtur þeirra rannsókna árið 1929 er hann gaf út ritið Málið á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Bæði þessi rit voru gefin út af Hinu íslenska fræðafélagi í Kaupmannahöfn.

Þó að Jón Helgason sé þekktastur á alþjóðavettvangi fyrir starf sitt að textaútgáfum eftir handritum kom hann miklu víðar við í íslenskum fræðum. Segja má að hann hafi sinnt öllum öldum í mál- og menningarsögu Íslands. Í ritsafni Hins íslenska fræðafélags í Höfn gaf hann út bókina Hrappseyjarprentsmiðja árið 1928 og Kvæði Bjarna Thorarensens gaf hann út 1935 í sömu ritröð. Árið 1942 kom bókin Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Síðasta verkið sem Jón gaf út í safni Fræðafjelagsins var Bréf Bjarna Thorarensens. Annað bindi þessa síðasta verks kom út að Jóni látnum 1986 í umsjá Agnete Loth. Öll eru verk þessi hvert öðru ólík. Kvæði Bjarna og Bréf, svo og Úr bréfabókum Brynjólfs biskups eru textaútgáfur eftir handritum. Ritið um Jón Ólafsson er rækileg ævisaga þar sem gerð er grein fyrir öllum ritum sem eftir hann liggja, efni þeirra rakið og dómur lagður á gildi þeirra. Þetta er ekkert áhlaupaverk því að Jón Grunnvíkingur er einhver afkastamesti rithöfundur á íslenska tungu en aldrei var neitt gefið út eftir hann á prenti í lifanda lífi. Í ritinu Hrappseyjarprentsmiðja gerir Jón grein fyrir útgáfustarfsemi prentsmiðjunnar í Hrappsey sem starfaði á árunum 1773–94. Málið á Nýja testamenti Odds er rækileg mállýsing á hinni fyrstu bók sem prentuð var á íslenska tungu. Lýst er stafsetningu, beygingum og setningafræði með samanburði við eldri og yngri málstig. Nærfellt hálf bókin er orðasafn þar sem einkum eru tekin orð og merkingar sem ekki er að finna í fornmálinu. Með þessum verkum innti Jón Helgason af höndum umtalsvert fræðistarf og setti fordæmi þar sem vönduð vinnubrögð og nákvæmni í meðferð heimilda sátu í fyrirrúmi.

Jón Helgason bjó í Kaupmannahöfn næstum allan sinn starfsaldur. Myndin sýnir Kaupmannahöfn um aldamótin 1900 eða nokkru áður en Jón flyst þangað.

Eftir síðari heimsstyrjöld beitti Jón sér fyrir því innan vébanda Hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn að hafin yrði útgáfa á íslenskum ritum frá síðari öldum. Þessi útgáfa nefndist Íslenzk rit síðari alda. Í þessu ritsafni komu út ein sjö rit, fjögur búin til prentunar af Jóni sjálfum: Ármanns rímur eftir Jón Guðmundsson lærða og Ármanns þáttur eftir Jón Þorláksson (1948); Ludvig Holberg: Nikulás Klím, íslensk þýðing eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík (1948); Móðars rímur og Móðars þáttur (1950) og Gamall kveðskapur (1979). Önnur rit í ritsafni þessu voru gefin út af öðrum en með atbeina og leiðsögn Jóns eins og glögglega má sjá í formálsorðum útgefenda. Enn fremur lét hann gera eftirmyndir, ljósprentanir, tveggja kvæðahandrita frá 17. öld og samdi rækilegan inngang að hvorutveggja. Með starfi sínu að þessu ritsafni hefur Jón lagt fram ótrúlegan skerf til rannsókna á íslenskum bókmenntum síðari alda, það er frá því upp úr siðaskiptum og fram um miðja 18. öld.

Strax á fyrstu misserum námsáranna í Kaupmannahöfn tók Jón að fást við rannsóknir og útgáfu miðaldatexta eftir handritum. Fyrsta viðfangsefnið var vinna við útgáfu Ólafs sögu helga, Den store Saga om Olaf den Hellige eða Ólafs saga helga hin sérstaka, sem norski fræðimaðurinn Oscar Albert Johnsen hafði forgöngu um. Haustið 1917 var Johnsen í Kaupmannahöfn og ráðfærði sig við Finn Jónsson um tilhögun útgáfunnar. Að ráði Finns fékk Johnsen Jón Helgason til liðs við sig. Eins og nafnið bendir til er saga þessi engin smásmíði og liðu rúmir tveir áratugir þangað til útgáfan var öll á enda kljáð árið 1941 og var Jón þá orðinn meðútgefandi Johnsens. Inngangur Johnsens að útgáfunni er afar fróðlegur og sýnir vel þátt Jóns í verkinu, hvernig hann byrjar sem efnilegur stúdent og að verkalokum öllum fræðimönnum fremri lífs og liðnum:

Gjennem årene har professor Helgason også erhvervet en sakkyndighet i behandlingen av håndskriftene som er meget sjelden i nutiden og neppe heller er overgått av noen av de fremste autoriteter på dette område i eldre tid, en Arne Magnusson, en dr. Kålund eller en Finnur Jónsson. (Oscar Albert Johnsen 1941: XIX–XX).

Þessu mikla verki sinnti Jón með fram mörgum öðrum störfum eins og lýst er hér á undan svo að það er ærið starf sem Jón hefur leyst af hendi á þeim aldarfjórðungi sem liðinn var frá því að hann kom að Ólafs sögu verkinu. Fyrsta sjálfstæða handritaútgáfa Jóns var hins vegar Heiðreks saga (1924) sem hann gaf út fyrir fornritafélagið Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (stofnað 1879). Jón var um árabil formaður þessa félags og kom sjálfur að fleiri útgáfum, Hákonar sögu Ívarssonar (ásamt Jakobi Benediktssyni) 1952 og Håndskriftet AM 445 c, I, 4to 1956.

Árið 1930 hóf útgefandinn Ejnar Munksgaard í Kaupmannahöfn að gefa út íslensk miðaldahandrit í ljósprentuðum útgáfum, Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi, og sá Jón Helgason um útgáfu þriggja þeirra og ritaði inngang. Þessum flokki var lokið 1956, en árið 1954 hóf Munksgaard útgáfu nýs flokks, Manuscripta Islandica, sem Jón sá einn um að öllu leyti og ritaði inngang að hverju bindi. Árið 1958 hóf forlagið Rosenkilde og Bagger ritröð með ljósprentunum íslenskra handrita, Early Icelandic Manuscripts in Facsimile, og ritstýrði Jón fyrstu fimmtán bindunum.

Á vegum forstöðunefndar Árnasafns (Kommissionen for det Arnamagnæanske Legat) gaf Jón út Íslenzk miðaldakvæði í tveimur bindum 1936 og 1938. Þetta var hugsað sem framhald af Den norsk-islandske skjaldedigtning sem Finnur Jónsson gaf út 1908–15. En því miður auðnaðist Jóni ekki að leiða þá útgáfu til lykta.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík. Jón Helgason var forstöðumaður stofnunarinnar í Kaupmannahöfn í 44 ár.

Að frumkvæði Jóns Helgasonar samþykkti forstöðunefnd Árnasafns árið 1937 að stofna til útgáfuraðar sem hlaut nafnið Bibliotheca Arnamagnæana. Jón varð ritstjóri þessa ritsafns frá upphafi til 1983 en frá 1976 voru Jonna Louis-Jensen og Peter Springborg meðritstjórar. Framan af komu þarna út textaútgáfur og var Háttalykill enn forni (1941) fyrsta ritið í þessum flokki sem Jón gaf út í félagi við norsku fræðakonuna Anne Holtsmark. Jón gaf sjálfur út tvö önnur bindi í þessari röð, bæði eftir Skúla Magnússon landfógeta: Beskrivelse af Gullbringu og Kjósar sýslur (1785) (1944) og Forsøg til en kort Beskrivelse af Island (1786) (1944). Þegar fram í sótti birtust þarna einnig rannsóknarritgerðir um ýmis efni íslenskra og norrænna fræða eftir höfunda af ýmsum þjóðlöndum. Jón ritstýrði öllu þessu til útgáfu, las verkin vandlega yfir, gagnrýndi og gerði tillögur til breytinga og fylgdi próförkum í prentsmiðju til enda. Sum bindin í Bibliotheca eru safn ritgerða eða smærri verka eftir ýmsa höfunda. Þessi bindi ritraðarinnar nefnast Opuscula. Jón var einnig ritstjóri þessara binda og á þar sjálfur ófáar ritsmíðar.

Upp úr miðjum sjötta áratug síðustu aldar var Árnasafn formlega gert að rannsóknarstofnun, Det arnamagnæanske institut, og var jafnframt veitt til starfseminnar fé sem munaði um. Þannig var hægt að halda áfram að gefa út fræðirit í ritröðinni Bibliotheca Arnamagnæana og enn fremur stofnaði Jón nýja ritröð sem eingöngu var ætluð textaútgáfum, Editiones Arnamagnæanæ, sem reyndar eru tvær eftir umfangi, Series A í stærra broti og Series B í minna broti. Jón var ritstjóri þessarar ritraðar og umsjónarmaður allra verka sem þar komu út á hans tíð. Sjálfur gaf hann þar út annað hefti Byskupa sagna sem hann hafði hafið útgáfu á löngu áður. Enn fremur gaf hann út í þessari röð (Series B) Íslenzk fornkvæði í átta bindum (1962–81). Aðrir útgefendur í þessari tvískiptu röð komu af mörgum þjóðlöndum austan hafs og vestan.

Um störf Jóns að textaútgáfum eftir handritum farast Stefáni Karlssyni svo orð:

Jón Helgason setti ekki fram nýjar aðferðafræðikenningar. Hann beitti þeirri vísindalegu aðferð í textarýni, sem byrjað var að nota á fyrri hluta 19. aldar, en hafði ekki verið beitt nema við fá íslensk handrit fyrr en á þessari öld og stundum með hæpnum árangri. Með flokkun handrita á grundvelli sameiginlegra villna er leitast við að komast að skyldleika þeirra, og þá fyrst er hægt að meta gildi mismunandi leshátta, hver þeirra sé líklegastur til þess að hafa verið í frumriti varðveittra handrita. Þessari aðferð beitti Jón af strangleika, en hann gerði sér um leið gleggri grein fyrir en margir aðrir að mjög oft verður ekki komist að upphaflegum texta með aðferðum textarýninnar, og því taldi hann vænlegast að fylgja eftir föngum einu handriti við prentun aðaltexta og birta fleiri texta saman, ef mismunur þeirra var umtalsverður. Mikilvægt var að kanna öll handrit, sem höfðu það ritverk að geyma sem að var unnið, og gera sem ljósasta grein fyrir einkennum hvers og eins, þannig að útgáfan yrði ekki hálfkák og leiddi ekki á villigötur. Vandvirkni Jóns og samviskusemi hans gagnvart þeim textum sem hann fékkst við og gagnvart lesendum valda því að þær útgáfur sem hann vann að eru afburða traustar og sjaldnast verður um bætt. (Stefán Karlsson 1986: 10).

Jón Helgason var prófessor við Hafnarháskóla og kenndi þar fjóra áratugi. Nemendur hans segja að kennslunni hafi fremur verið sinnt af kvöð en ástríðu, rannsóknir og ritstörf hafi verið honum allt. En persónuleikinn, fróðleiksmiðlunin og frásagnarhæfileikinn hafi verið slíkur að kennslustundirnar hafi oftar en ekki verið skemmtistundir. Hann samdi nokkur rit sem ætluð voru til stuðnings við háskólakennslu og voru notuð víðar en í Höfn. Tvö rit um bókmenntasögu gaf hann út, Norrøn litteraturhistorie (1934) og Norges og Islands digtning (1953; Nordisk kultur VIII). Hann gaf út nokkur hefti fornra texta til sömu nota í ritröðinni Nordisk filologi sem hann ritstýrði ásamt nokkrum öðrum norrænum fræðimönnum: Eddukvæði, dróttkvæði, sögukafla úr Landnámu og Hrafnkels sögu.

Ekki verður skilist við fræði- og ritstörf Jóns Helgasonar án þess að minnst sé á þau rit sem hann gaf út hér heima almenningi til fróðleiks og skemmtunar. Árið 1958 kom út á forlagi Máls og menningar bókin Handritaspjall þar sem íslenskur handritaforði, forn og nýr, er að marki kynntur íslenskum almenningi í fyrsta sinn. Tvær kviður fornar, Völundarkviða og Atlakviða með skýringum kom út 1962. Enn fremur Kviður af Gotum og Húnum: Hamdismál, Guðrúnarhvöt, Hlöðskviða með skýringum (1967). Í öllum þessum bókum, í aðfaraorðum, inngangi og skýringum, er ótrúlegur fróðleikur saman kominn settur fram á skýran hátt með frábæru orðfæri. Hér má enn fremur nefna bókina Ritgerðakorn og ræðustúfa sem Hafnarstúdentar gáfu út honum til heiðurs á sextugsafmæli hans 30. júní 1959. Ritgerðasmíð var reyndar ríkur þáttur í fræðistarfi Jóns. Auk þess sem hann birti greinar fyrir landa sína heima og erlendis birti hann fjölda greina um margvísleg efni í fræðatímaritum og afmælisritum. Þetta er þvílíkur sægur að ekki er vinnandi vegur að telja neitt að gagni hér. Verður að láta nægja að vísa til ritaskrár Jóns í þrennu lagi eftir Agnete Loth og fleiri.

Jóni Helgasyni var margvíslegur sómi sýndur fyrir fræðistörf sín. Hann var kjörinn félagi í öllum helstu vísindafélögum og akademíum á Norðurlöndum. Hann varð félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1930 og heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags 1951. Hann var enn fremur kjörinn heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1974.

Heimildir:
  • Við samantekt þessa hefur meðal annars verið stuðst við minningargreinar um Jón Helgason í reykvísku dagblöðunum, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum, 23. janúar 1986 en ríkastan stuðning hef ég haft af minningar- og æviþáttum eftir Stefán Karlsson (1986) og Ólaf Halldórsson (1997).
  • Oscar Albert Johnsen. 1941. Saga Ólafs konungs hins helga, Den store saga om Olav den hellige […] Utgitt for Kjeldeskriftfondet av Oscar Albert Johnsen og Jón Helgason. Oslo 1941.
  • Agnete Loth. 1969. Jón Helgason. Bibliografi. Udarbejdet af Agnete Loth. Rosenkilde og Bagger 1969.
  • Agnete Loth. 1991. Jón Helgason. Bibliografi 1980–1986. Opuscula IX. Bibliotheca Arnamagnæana XXXIX. København.
  • Ólafur Halldórsson. 1997. Jón Helgason. Andvari. Nýr Flokkur XXXIX. 122. ár. Hið íslenzka þjóðvinafélag 1997.
  • Stefán Karlsson. 1986. Jón Helgason prófessor. 1899–1986. Tímarit Máls og menningar 47. árg. 1. hefti feb. 1986. Bókmenntafélagið Mál og menning.
  • Thuesen, Karen og John Tietze. Jón Helgason. Bibliografi. 1969–1979. Opuscula VII. Bibliotheca Arnamagnæana XXXIV. København.

Myndir:...