Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir?

Sigurður Hjartarson

Hugtakið Maya er notað um fjölda skyldra þjóða sem um langan aldur hafa byggt syðstu fylki Mexíkó, auk Gvatemala, Belís og nyrstu hluta Hondúras og El Salvador. Landsháttum má skipta í tvennt, láglendið í norðri í Mexíkó, Belís og Norður-Gvatemala er af kalksteini, sem risið hefur úr sjó, en fjalllendið í suðri er spannar syðsta hluta Sierra Madre í Mexíkó, syðri helming Gvatemala og inn í Hondúras og El Salvador hefur byggst upp af eldvirkni í tímans rás.



Kort af Mayasvæðinu með helstu fornminjastöðum og menningarsvæðum.

Meðalárshiti á láglendinu er yfir 25°C en í fjalllendinu í suðri fer meðalhitinn eftir hæð yfir sjó, víða um og undir 15 gráðum í hæstu hlíðum. Úrkoma er afar breytileg, frá 4000 mm á ári nyrst í fjalllendinu niður í 500 mm eða minna á stórum hluta láglendisins. Regntíminn varir frá júní til nóvember, en nyrst í Chiapas og í Tabasco í Mexíkó er enginn þurrkatími og rignir þar alla mánuði ársins. Allt er landið vafið hitabeltisgróðri, víða illfærum.

Um uppruna Mayanna og elstu sögu er flest á huldu og hvorki arfsagnir né fornleifarannsóknir hafa varpað ljósi á elstu tíma þeirra. Nokkur leirbrot af skálum og fígúrum hafa fundist sem eru frá því fyrir 800 f.Kr. en eftir það fer hvers kyns minjum fjölgandi. Eftir um 300 f.Kr. er ljóst að ör menningarþróun er hafin víða á svæðinu og um 150 árum eftir upphaf okkar tímatals er kominn augljós grunnur að því sem kallað hefur verið klassíski tíminn með fjölda stórra og smárra borgríkja með píramídum, glæsilegum torgum, hofum, höllum og stjörnuskoðunarturnum af steini.

Klassíski tíminn í menningarsögu Mayanna spannar tímann frá um 300 til um 900 e.Kr. er flestir menningarþættir þeirra springa út með meiri blóma en annars staðar gerðist meðal frumbyggja álfunnar. Á 10. öld samkvæmt okkar tímatali hefst hrörnun og síðan stöðnun, sem erfitt hefur reynst að skýra. Ljóst er þó að vaxandi átaka tekur að gæta víða á svæðinu milli einstakra borgríkja og undir lok aldarinnar verður Chichén Itzá, utarlega á Yucatanskaganum, fyrir innrás Tolteka ofan frá hásléttu Mið-Mexíkó. Chichén Itzá er reyndar einstök, þar sem klassískur stíll Mayanna blandast saman við yngri byggingar með stíl Toltekanna frá Tula.



Píramídinn í Chichén Itzá.

Lengi töldu fræðimenn að Mayaþjóðir hefðu verið einstaklega friðsælar og sjaldan átt í stríðum við nágranna sína. En er menn náðu að ráða letur Mayanna kom allt annað í ljós. Borgríkin áttu sína blóma- og hnignunartíma og stóðu oft í erjum og vopnuðum átökum sín í milli. Hæfist eitt ríki til aukinna áhrifa leiddi það gjarnan til útþenslu á kostnað nágrannaríkja.

Fjöldi sögulegra texta hafa sýnt að hernaður var algengur, borgir voru rændar og íbúarnir gerðir skattskyldir, fangar teknir, þrælkaðir og pyntaðir eða þeim fórnað á altari guðanna. Algengt var að herleiðangrar væru gerðir út til að afla fanga til fórna í aðdraganda stórra tíðinda, vígslu nýrra hofa, vígslu nýrra konunga og svo framvegis. Voru fangarnir jafnvel neyddir til þátttöku í boltaleikjum og þeim síðan fórnað. Væru tignarmenn andstæðinga fangaðir birtist frásögn af afrekinu á þeim minnismerkjum er sigurvegarinn lét reisa sjálfum sér til dýrðar.

Slíkur ósigur einnar borgar gat þýtt að nýtt valdahlutfall myndaðist, þar sem langvarandi hnignunarskeið urðu örlög hins sigraða en vegur sigurvegarans jókst stórum með miklum hagsbótum fyrir íbúana. Hins vegar gerðist það aldrei meðal Mayanna að stór ríki mynduðust er spönnuðu víðáttumikil svæði.

Tími Mayanna, frá mótunartímanum til loka póstklassíska tímans, er ríflega þúsund ár, og á þessum tíma tókst þeim að skapa menningu er tvímælalaust náði meiri hæðum en annars staðar þekktist í nýja heiminum. Sama er hvar gripið er niður. Þótt einstakar þjóðir í sögu álfunnar, svo sem Teotihuacán, Aztekar eða Inkar, hafi vissulega skapað öflugri ríki, má hiklaust fullyrða að engin þjóð hafi haft tærnar þar sem Mayarnir höfðu hælana í listrænni tjáningu í hvers konar formlistum né náð viðlíka hæð í andlegum menntum og vísindum. Og enn eru að finnast áður óþekktar fornminjar sem fylla æ betur út í heildarmyndina um sögu og menningarlega yfirburði þessara makalausu þjóða.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
  • R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
  • Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
  • Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
  • T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
  • J.A. Sabloff: The Cities of Ancient Mexico. London, 1997.
  • Mary Ellen Mirren: Maya Art and Architeture. London, 1999.
  • S.G. Morley: La Civilización Maya. Mexico, DF, 1994.
  • Kort: Latin American Studies. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 8. 3. 2011.
  • Mynd frá Chichén Itzá: Chichen Itza á Wikipedia. Ljósmyndari: Daniel Schwen. Birt undir GNU Free Documentation og Creative Commons Attribution-ShareAlike 3.0 Unported leyfum. Sótt 8. 3. 2011.

Höfundur

sagnfræðingur og kennari

Útgáfudagur

3.5.2011

Spyrjandi

Eiður Daði Bjarkason, Þorsteinn Hjörtur Jónsson, Jón Orri Sigurðarson,

Tilvísun

Sigurður Hjartarson. „Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir?“ Vísindavefurinn, 3. maí 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=56330.

Sigurður Hjartarson. (2011, 3. maí). Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=56330

Sigurður Hjartarson. „Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir?“ Vísindavefurinn. 3. maí. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=56330>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir?
Hugtakið Maya er notað um fjölda skyldra þjóða sem um langan aldur hafa byggt syðstu fylki Mexíkó, auk Gvatemala, Belís og nyrstu hluta Hondúras og El Salvador. Landsháttum má skipta í tvennt, láglendið í norðri í Mexíkó, Belís og Norður-Gvatemala er af kalksteini, sem risið hefur úr sjó, en fjalllendið í suðri er spannar syðsta hluta Sierra Madre í Mexíkó, syðri helming Gvatemala og inn í Hondúras og El Salvador hefur byggst upp af eldvirkni í tímans rás.



Kort af Mayasvæðinu með helstu fornminjastöðum og menningarsvæðum.

Meðalárshiti á láglendinu er yfir 25°C en í fjalllendinu í suðri fer meðalhitinn eftir hæð yfir sjó, víða um og undir 15 gráðum í hæstu hlíðum. Úrkoma er afar breytileg, frá 4000 mm á ári nyrst í fjalllendinu niður í 500 mm eða minna á stórum hluta láglendisins. Regntíminn varir frá júní til nóvember, en nyrst í Chiapas og í Tabasco í Mexíkó er enginn þurrkatími og rignir þar alla mánuði ársins. Allt er landið vafið hitabeltisgróðri, víða illfærum.

Um uppruna Mayanna og elstu sögu er flest á huldu og hvorki arfsagnir né fornleifarannsóknir hafa varpað ljósi á elstu tíma þeirra. Nokkur leirbrot af skálum og fígúrum hafa fundist sem eru frá því fyrir 800 f.Kr. en eftir það fer hvers kyns minjum fjölgandi. Eftir um 300 f.Kr. er ljóst að ör menningarþróun er hafin víða á svæðinu og um 150 árum eftir upphaf okkar tímatals er kominn augljós grunnur að því sem kallað hefur verið klassíski tíminn með fjölda stórra og smárra borgríkja með píramídum, glæsilegum torgum, hofum, höllum og stjörnuskoðunarturnum af steini.

Klassíski tíminn í menningarsögu Mayanna spannar tímann frá um 300 til um 900 e.Kr. er flestir menningarþættir þeirra springa út með meiri blóma en annars staðar gerðist meðal frumbyggja álfunnar. Á 10. öld samkvæmt okkar tímatali hefst hrörnun og síðan stöðnun, sem erfitt hefur reynst að skýra. Ljóst er þó að vaxandi átaka tekur að gæta víða á svæðinu milli einstakra borgríkja og undir lok aldarinnar verður Chichén Itzá, utarlega á Yucatanskaganum, fyrir innrás Tolteka ofan frá hásléttu Mið-Mexíkó. Chichén Itzá er reyndar einstök, þar sem klassískur stíll Mayanna blandast saman við yngri byggingar með stíl Toltekanna frá Tula.



Píramídinn í Chichén Itzá.

Lengi töldu fræðimenn að Mayaþjóðir hefðu verið einstaklega friðsælar og sjaldan átt í stríðum við nágranna sína. En er menn náðu að ráða letur Mayanna kom allt annað í ljós. Borgríkin áttu sína blóma- og hnignunartíma og stóðu oft í erjum og vopnuðum átökum sín í milli. Hæfist eitt ríki til aukinna áhrifa leiddi það gjarnan til útþenslu á kostnað nágrannaríkja.

Fjöldi sögulegra texta hafa sýnt að hernaður var algengur, borgir voru rændar og íbúarnir gerðir skattskyldir, fangar teknir, þrælkaðir og pyntaðir eða þeim fórnað á altari guðanna. Algengt var að herleiðangrar væru gerðir út til að afla fanga til fórna í aðdraganda stórra tíðinda, vígslu nýrra hofa, vígslu nýrra konunga og svo framvegis. Voru fangarnir jafnvel neyddir til þátttöku í boltaleikjum og þeim síðan fórnað. Væru tignarmenn andstæðinga fangaðir birtist frásögn af afrekinu á þeim minnismerkjum er sigurvegarinn lét reisa sjálfum sér til dýrðar.

Slíkur ósigur einnar borgar gat þýtt að nýtt valdahlutfall myndaðist, þar sem langvarandi hnignunarskeið urðu örlög hins sigraða en vegur sigurvegarans jókst stórum með miklum hagsbótum fyrir íbúana. Hins vegar gerðist það aldrei meðal Mayanna að stór ríki mynduðust er spönnuðu víðáttumikil svæði.

Tími Mayanna, frá mótunartímanum til loka póstklassíska tímans, er ríflega þúsund ár, og á þessum tíma tókst þeim að skapa menningu er tvímælalaust náði meiri hæðum en annars staðar þekktist í nýja heiminum. Sama er hvar gripið er niður. Þótt einstakar þjóðir í sögu álfunnar, svo sem Teotihuacán, Aztekar eða Inkar, hafi vissulega skapað öflugri ríki, má hiklaust fullyrða að engin þjóð hafi haft tærnar þar sem Mayarnir höfðu hælana í listrænni tjáningu í hvers konar formlistum né náð viðlíka hæð í andlegum menntum og vísindum. Og enn eru að finnast áður óþekktar fornminjar sem fylla æ betur út í heildarmyndina um sögu og menningarlega yfirburði þessara makalausu þjóða.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

  • Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
  • R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
  • Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
  • Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
  • T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
  • J.A. Sabloff: The Cities of Ancient Mexico. London, 1997.
  • Mary Ellen Mirren: Maya Art and Architeture. London, 1999.
  • S.G. Morley: La Civilización Maya. Mexico, DF, 1994.
  • Kort: Latin American Studies. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 8. 3. 2011.
  • Mynd frá Chichén Itzá: Chichen Itza á Wikipedia. Ljósmyndari: Daniel Schwen. Birt undir GNU Free Documentation og Creative Commons Attribution-ShareAlike 3.0 Unported leyfum. Sótt 8. 3. 2011.
...