Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Carl von Linné?

Margrét Björk Sigurðardóttir

Carl von Linné (1707-1778), einnig þekktur sem Carl Linnaeus eða Carolus Linnaeus, hefur oft verið kallaður faðir flokkunarfræðinnar. Hann fann upp svokallað tvínafnakerfi (e. binomial nomenclature) sem nú er notað til flokkunar á öllum lífverum.

Linné fæddist 23. maí árið 1707 í suðurhluta Svíþjóðar. Frá unga aldri hafði hann brennandi áhuga á náttúrufræðum og þá sérstaklega á plöntum og nafngiftum þeirra. Árið 1735 lauk hann námi í læknisfræði þrátt fyrir að raunverulegur áhugi hans beindist að grasa- og flokkunarfræði. Á þessum tíma var þó nauðsynlegt fyrir lækna að kunna ýmislegt fyrir sér í grasafræði og þekkja vel til lækningajurta. Linné gat því samhliða læknanáminu sinnt sínum helstu hugðarefnum og hafði áður en hann útskrifaðist farið í könnunarleiðangra bæði um Lappland og Dalarna. Þar kortlagði hann bæði flóru og fánu, sem og lifnaðarhætti fólksins sem þar bjó.

Sama ár og Linné lauk prófi í læknisfræði gaf hann út bæklinginn Systema Naturae, þar sem hann kynnti til sögunnar latneskt tvínafnakerfi sitt til flokkunar lífvera. Á næstu árum endurskoðaði hann og endurgerði stöðugt þessa flokkun sína og á endanum varð þessi litli bæklingur sem kom út árið 1735 að viðamiklu ritverki í mörgum bindum. Árið 1753 kom svo út bókin Species Plantarum þar sem Linné flokkaði plöntur eingöngu út frá latneska tvínafnakerfinu.

Þótt sú flokkun sem Linné gerði á bæði plöntum og dýrum sé að mörgu leyti mjög ólík því sem viðgengst í dag stendur eftir sú nálgun sem hann hafði á flokkunarfræðina, það er að flokka samkvæmt skyldleika og latnesku tvínafnakerfi, þar sem fyrra heitið stendur fyrir ættkvíslina en síðara heitið auðkennir tegundina. Sem dæmi má taka að áður en Linné kom til sögunnar var fræðilegt heiti hunangsflugunnar Apis pubecens, thorace subgriseo, abdomine fusco, pedibus posticis glabris utrinque margine ciliatis en samkvæmt hans kerfi varð heitið einfaldlega Apis mellifera. Notkun latínu sem alþjóðlegs máls flokkunarfræðinnar dró líka úr tungumálaörðugleikum og hugsanlegum misskilningi á milli náttúruvísindamanna í sambandi við heiti dýra og plantna.

Linné var mjög ötull vísindamaður og er enn í dag einn merkasti fræðimaður Svía. Þótt hann sé þekktastur fyrir flokkunarkerfi sitt þá er afrekslisti hans langur. Hann var meðal annars einn af stofnendum Konunglegu sænsku vísindaakademíunnar (Kungliga Vetenskapsakademien) og jafnframt fyrsti forseti hennar. Hann gat fyrstur manna ræktað banana með góðum árangri í Evrópu. Hann var mjög vinsæll sem prófessor í Háskólanum í Uppsölum (Uppsala Universitet) og varð eldmóður hans mörgum innblástur. Hann var duglegur við að aðstoða nemendur sína við rannsóknir og störf og blés nýju lífi í sænskt vísindasamfélag.

Linné endurgerði einnig og byggði upp grasagarðinn í Uppsölum og færði hann í núverandi horf. Í tengslum við það starf hannaði hann nútímahitamæli, sem er eitt af hans merkustu afrekum. Við uppbyggingu grasagarðsins lagði Linné mikla áherslu á stjórnun loftslags og þurfti til þess á nákvæmum hitamæli að halda. Daniel Ekström hjá Konunglegu sænsku vísindaakademíunni smíðaði hitamælinn eftir fyrirmælum Linné árin 1743-1744. Samkvæmt fyrirmælum frá Linné var hitaskala sænska vísindamannsins Anders Celsius (1701-1744) snúið við í mælinum. Þannig táknuðu 0°C nú frostmark vatns í stað suðumarks áður, og suðumark vatns var miðað 100°C í stað frostmarks áður. Þetta gerði Linné kleift að mæla einnig hita sem fór undir frostmark og hentaði þessi mælikvarði því betur til notkunar við náttúrlegar aðstæður. Þessi breyting gerði það einnig mögulegt að mæla mjög háan hita svo sem bræðslumark járns sem er 1538°C.

Árið 1757 var Linné sleginn til riddara fyrir störf í þágu vísindanna og tók þá upp nafnið Carl von Linné í stað Carl Linnaeus áður. Hann lést 10. janúar árið 1778, þá 70 ára að aldri. Á lífsleiðinni gaf hann út meira en 70 bækur og 300 vísindagreinar og umbylti flokkunarfræðinni sem vísindagrein. Eins og hann orðaði það sjálfur:
Guð skapaði – Linné flokkaði.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

2.11.2005

Spyrjandi

Herbert Már, f. 1992
Jóhanna Sveinbjörg, f. 1992

Tilvísun

Margrét Björk Sigurðardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Carl von Linné? “ Vísindavefurinn, 2. nóvember 2005. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5375.

Margrét Björk Sigurðardóttir. (2005, 2. nóvember). Hvað getið þið sagt mér um Carl von Linné? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5375

Margrét Björk Sigurðardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Carl von Linné? “ Vísindavefurinn. 2. nóv. 2005. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5375>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Carl von Linné?
Carl von Linné (1707-1778), einnig þekktur sem Carl Linnaeus eða Carolus Linnaeus, hefur oft verið kallaður faðir flokkunarfræðinnar. Hann fann upp svokallað tvínafnakerfi (e. binomial nomenclature) sem nú er notað til flokkunar á öllum lífverum.

Linné fæddist 23. maí árið 1707 í suðurhluta Svíþjóðar. Frá unga aldri hafði hann brennandi áhuga á náttúrufræðum og þá sérstaklega á plöntum og nafngiftum þeirra. Árið 1735 lauk hann námi í læknisfræði þrátt fyrir að raunverulegur áhugi hans beindist að grasa- og flokkunarfræði. Á þessum tíma var þó nauðsynlegt fyrir lækna að kunna ýmislegt fyrir sér í grasafræði og þekkja vel til lækningajurta. Linné gat því samhliða læknanáminu sinnt sínum helstu hugðarefnum og hafði áður en hann útskrifaðist farið í könnunarleiðangra bæði um Lappland og Dalarna. Þar kortlagði hann bæði flóru og fánu, sem og lifnaðarhætti fólksins sem þar bjó.

Sama ár og Linné lauk prófi í læknisfræði gaf hann út bæklinginn Systema Naturae, þar sem hann kynnti til sögunnar latneskt tvínafnakerfi sitt til flokkunar lífvera. Á næstu árum endurskoðaði hann og endurgerði stöðugt þessa flokkun sína og á endanum varð þessi litli bæklingur sem kom út árið 1735 að viðamiklu ritverki í mörgum bindum. Árið 1753 kom svo út bókin Species Plantarum þar sem Linné flokkaði plöntur eingöngu út frá latneska tvínafnakerfinu.

Þótt sú flokkun sem Linné gerði á bæði plöntum og dýrum sé að mörgu leyti mjög ólík því sem viðgengst í dag stendur eftir sú nálgun sem hann hafði á flokkunarfræðina, það er að flokka samkvæmt skyldleika og latnesku tvínafnakerfi, þar sem fyrra heitið stendur fyrir ættkvíslina en síðara heitið auðkennir tegundina. Sem dæmi má taka að áður en Linné kom til sögunnar var fræðilegt heiti hunangsflugunnar Apis pubecens, thorace subgriseo, abdomine fusco, pedibus posticis glabris utrinque margine ciliatis en samkvæmt hans kerfi varð heitið einfaldlega Apis mellifera. Notkun latínu sem alþjóðlegs máls flokkunarfræðinnar dró líka úr tungumálaörðugleikum og hugsanlegum misskilningi á milli náttúruvísindamanna í sambandi við heiti dýra og plantna.

Linné var mjög ötull vísindamaður og er enn í dag einn merkasti fræðimaður Svía. Þótt hann sé þekktastur fyrir flokkunarkerfi sitt þá er afrekslisti hans langur. Hann var meðal annars einn af stofnendum Konunglegu sænsku vísindaakademíunnar (Kungliga Vetenskapsakademien) og jafnframt fyrsti forseti hennar. Hann gat fyrstur manna ræktað banana með góðum árangri í Evrópu. Hann var mjög vinsæll sem prófessor í Háskólanum í Uppsölum (Uppsala Universitet) og varð eldmóður hans mörgum innblástur. Hann var duglegur við að aðstoða nemendur sína við rannsóknir og störf og blés nýju lífi í sænskt vísindasamfélag.

Linné endurgerði einnig og byggði upp grasagarðinn í Uppsölum og færði hann í núverandi horf. Í tengslum við það starf hannaði hann nútímahitamæli, sem er eitt af hans merkustu afrekum. Við uppbyggingu grasagarðsins lagði Linné mikla áherslu á stjórnun loftslags og þurfti til þess á nákvæmum hitamæli að halda. Daniel Ekström hjá Konunglegu sænsku vísindaakademíunni smíðaði hitamælinn eftir fyrirmælum Linné árin 1743-1744. Samkvæmt fyrirmælum frá Linné var hitaskala sænska vísindamannsins Anders Celsius (1701-1744) snúið við í mælinum. Þannig táknuðu 0°C nú frostmark vatns í stað suðumarks áður, og suðumark vatns var miðað 100°C í stað frostmarks áður. Þetta gerði Linné kleift að mæla einnig hita sem fór undir frostmark og hentaði þessi mælikvarði því betur til notkunar við náttúrlegar aðstæður. Þessi breyting gerði það einnig mögulegt að mæla mjög háan hita svo sem bræðslumark járns sem er 1538°C.

Árið 1757 var Linné sleginn til riddara fyrir störf í þágu vísindanna og tók þá upp nafnið Carl von Linné í stað Carl Linnaeus áður. Hann lést 10. janúar árið 1778, þá 70 ára að aldri. Á lífsleiðinni gaf hann út meira en 70 bækur og 300 vísindagreinar og umbylti flokkunarfræðinni sem vísindagrein. Eins og hann orðaði það sjálfur:
Guð skapaði – Linné flokkaði.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

...