Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Florence Nightingale?

Kristín Björnsdóttir

Florence Nightingale fæddist árið 1820 og lést árið 1910. Foreldrar hennar tilheyrðu ensku yfirstéttinni og hún bjó við góð efni alla ævi. Nightingale naut góðrar menntunar á heimili sínu og á löngum ferðalögum um Evrópu og Austurlönd nær kynntist hún ólíkum þjóðum og siðum.

Líkt og margir samferðamenn hennar hafði hún mikinn áhuga á samfélagslegum umbótum, sérstaklega þeim sem tengdust trúmálum og heilbrigðismálum. Hún skrifaði um aðstæður þeirra sem minna máttu sín og barðist fyrir umhverfisumbótum, bæði innan heilbrigðisstofnana og í samfélaginu. Hún einbeitti sér að endurskoðun á skipulagi sjúkrahúsa og skrifaði meðal annars bókina Notes on Hospitals sem kom út árið 1859; endurskoðuð og ítarlegri útgáfa árið 1863. Í þessari bók, líkt og í mörgum öðrum ritverkum, notaði Nightingale tölfræðilegar aðferðir til að styðja röksemdafærslu sína. Bókin hlaut mikla útbreiðslu og höfðu hugmyndir hennar um skipulag sjúkrahúsa veruleg áhrif á uppbyggingu þeirra á nítjándu öldinni. Hún beitti sér einnig fyrir umbótum innan breska hersins sem var eitt af æviverkefnum hennar. Frægust varð hún þó fyrir framlag sitt til hjúkrunar og hjúkrunarmenntunar.

Ævi Nightingale var um margt mjög óvenjuleg. Hún er ein fárra kvenna sem getið er í sögunni. Nafn hennar var þekkt líkt og nöfn Dickens (1812-1870) og Darwins (1809-1882). Þó Nightingale geti varla talist femínisti og hafi á margan hátt haft hefðbundnar hugmyndir um konur, gagnrýndi hún þann skort á möguleikum sem konur, sérstaklega af efri stéttum, höfðu til að láta til sín taka í samfélaginu. Í smásögunni Cassandra sem hún skrifaði um tvítugt og birtist í bókinni Suggestions for Thought velti hún fyrir sér hvers vegna konum sé gefin ástríða, greind og siðgæðisþroski, en engin tækifæri til að nýta þá hæfileika. Lýsir hún því hvernig hjónabandið verður til að styrkja stöðu karla en telur jafnframt að konur festist í þröngum heimi innihaldslítilla athafna. Nightingale giftist ekki og er því oft haldið fram að hún hafi valið einlífi til að getað helgað sig baráttumálum sínum. Hún var sannarlega hæfileikarík, kunni nokkur tungumál, hafði lært stærðfræði og heimspeki og bjó yfir miklum sannfæringarkrafti. Hún var í reglulegu sambandi við ýmsa áhrifamikla hugsuði nítjándu aldarinnar eins og John Stuart Mill, Benjamin Jowett og Edwin Chadwick. Sjá má að hugmyndir hennar um samfélagsumbætur og framfarir á sviði heilbrigðismála mótuðust af hreinlætiskenningunni (e. sanitary theory) sem var afar útbreidd á nítjándu öld.

Í hjúkrun sá Nightingale tækifæri fyrir konur til að láta til sín taka í opinberu lífi og lagði sig fram um að kynnast störfum þeirra sem unnu við hana sem á þeim tíma voru aðallega hjúkrunarsystur. Hún lagði sig fram um að kynna sér heilbrigðismál á ferðalögum sínum og fór í sérstök ferðalög til að skoða hjúkrunarstarfsemi. Í Keiserswerth í Þýskalandi kynnti hún sér starfsemi díakonissa sem nutu leiðsagnar Fliedner-hjónanna á sjúkrahúsi þeirra. Einnig dvaldi hún um tíma í París við sjúkrahús hinna kaþólsku líknarsystra. Það var á grunni þessara heimsókna og hinnar víðtæku þekkingar sem hún hafði tileinkað sér á heilbrigðis- og umhverfisfræði þess tíma sem hún þróaði hugmyndir sínar um hjúkrunarstarfið. Þær hugmyndir fékk hún tækifæri til að prófa við raunverulegar aðstæður er hún var beðin um að taka að sér að skipuleggja hjúkrun breskra hermanna sem börðust í Krímstríðinu. Það olli verulegum áhyggjum heima fyrir að dánartíðni meðal þeirra var himinhá, mun hærri en meðal franskra hermanna sem nutu hjúkrunar kaþólskra hjúkrunarsystra. Nightingale dvaldi ásamt hjúkrunarkonum sínum í tvö ár á Krímskaganum. Þar skipulagði hún sjúkrahúsið og umönnun hermannanna þar sem áhersla var lögð á hreinlæti, gott loft, hollan mat og faglega framkomu. Árangurinn lét ekki á sér standa og dánartíðni lækkaði til muna.



Florence Nightingale var kölluð „konan með lampann“ og á það rætur að rekja til þeirrar venju að ganga á milli sjúkra og særðra hermanna að næturlagi með lampa í hönd til að hjúkra þeim.

Við heimkomuna var Nightingale hyllt sem þjóðhetja. Hún hafði sannfært bresku þjóðina um mikilvægi þess að fylgja hugmyndum heilbrigðisfræðinnar og um gildi hjúkrunarkvenna fyrir velferð almennings. Fram fór söfnun og var Nightingale beðin um að setja fram hugmyndir um það hvernig söfnunarfénu yrði best varið. Hún lagði til að komið væri á stofn hjúkrunarskóla til að mennta konur til hjúkrunarstarfa. Árið 1860 hófst hjúkrunarnám við St. Thomas-sjúkrahúsið í London og hafði Nightingale mikil áhrif á skipulag þess og var í sambandi við nemendurna. Nightingale skrifaði einnig bókina Notes on Nursing sem kom út árið 1859, en í henni setti hún fram sínar hugmyndir um hjúkrun, þó hún taki fram að bókin sé ekki hugsuð sem leiðbeiningarit við framkvæmd hjúkrunar. Bókin var þýdd á fjölmörg tungumál og mótaði hugmyndir um eðli hjúkrunar um allan heim langt fram á tuttugustu öldina.

Á meðan á Krímstríðinu stóð veiktist Nightingale og náði hún aldrei fullu þreki eftir það. Ekki var vitað hvaða sjúkdómur þetta var þá, en nú er talið að hún hafi fengið sjúkdóminn brucellosis sem einnig var nefndur Crimean fever eftir Krímskaganum en hann smitast meðal annars með ógerilsneyddri mjólk. Brucellosis veldur almennri vanlíðan, þreytu og verkjum. Eftir heimkomuna úr stríðinu var Nightingale oft sárþjáð og fór sjaldan út á meðal manna. Hún var þó í miklu sambandi við vini og samstarfsmenn sem heimsóttu hana til að ræða um þjóðþrifamál. Mikilvægasta leið hennar til samskipta voru þó bréfaskriftir og skýrslugerðir sem endurspegla ákafa hennar, greind og sannfæringarkraft. Nightingale notaði gjarnan tölfræði máli sínu til stuðnings, en þar kom stærðfræðiþekking hennar sér vel.

Oft hefur Florence Nightingale verið kölluð „konan með lampann“. Hún var meira en það. Með skrifum sínum hafði hún áhrif á þróun heilbrigðismála á nítjándu öldinni og stuðlaði að því að hjúkrun varð að sjálfstæðri starfsgrein.

Heimildir og myndir:

  • Bostridge, M. (2008). Florence Nightingale: The Woman and Her Legend. London: Penguin.
  • Kristín Björnsdóttir (2005). Líkami og sál: Hugmyndir, þekking og aðferðir í hjúkrun. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Nelson, S. og Rafferty, A. M. (2010). Notes on Nightingale: The Influence and Legacy of a Nursing Icon. Ithaca, NY: Cornell University Press.
  • Mynd af Florence Nightingale: Florence Nightingale á Wikipedia. Sótt 28. 4. 2011.
  • Mynd af konunni með lampann: Florence Nightingale: Mother of Nursing á Edhird's Blog. Sótt 28. 4. 2011.

Höfundur

prófessor í hjúkrunarfræði við HÍ

Útgáfudagur

13.5.2011

Spyrjandi

Stefanía Pálsdóttir, Friðrik Kárason, Unnur Lilja Bjarnadóttir, Sigríður Ásta, Bryndís Indriðadóttir, Ragna Ólöf Guðmundsdóttir

Tilvísun

Kristín Björnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Florence Nightingale?“ Vísindavefurinn, 13. maí 2011. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=52330.

Kristín Björnsdóttir. (2011, 13. maí). Hvað getið þið sagt mér um Florence Nightingale? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=52330

Kristín Björnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Florence Nightingale?“ Vísindavefurinn. 13. maí. 2011. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=52330>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Florence Nightingale?
Florence Nightingale fæddist árið 1820 og lést árið 1910. Foreldrar hennar tilheyrðu ensku yfirstéttinni og hún bjó við góð efni alla ævi. Nightingale naut góðrar menntunar á heimili sínu og á löngum ferðalögum um Evrópu og Austurlönd nær kynntist hún ólíkum þjóðum og siðum.

Líkt og margir samferðamenn hennar hafði hún mikinn áhuga á samfélagslegum umbótum, sérstaklega þeim sem tengdust trúmálum og heilbrigðismálum. Hún skrifaði um aðstæður þeirra sem minna máttu sín og barðist fyrir umhverfisumbótum, bæði innan heilbrigðisstofnana og í samfélaginu. Hún einbeitti sér að endurskoðun á skipulagi sjúkrahúsa og skrifaði meðal annars bókina Notes on Hospitals sem kom út árið 1859; endurskoðuð og ítarlegri útgáfa árið 1863. Í þessari bók, líkt og í mörgum öðrum ritverkum, notaði Nightingale tölfræðilegar aðferðir til að styðja röksemdafærslu sína. Bókin hlaut mikla útbreiðslu og höfðu hugmyndir hennar um skipulag sjúkrahúsa veruleg áhrif á uppbyggingu þeirra á nítjándu öldinni. Hún beitti sér einnig fyrir umbótum innan breska hersins sem var eitt af æviverkefnum hennar. Frægust varð hún þó fyrir framlag sitt til hjúkrunar og hjúkrunarmenntunar.

Ævi Nightingale var um margt mjög óvenjuleg. Hún er ein fárra kvenna sem getið er í sögunni. Nafn hennar var þekkt líkt og nöfn Dickens (1812-1870) og Darwins (1809-1882). Þó Nightingale geti varla talist femínisti og hafi á margan hátt haft hefðbundnar hugmyndir um konur, gagnrýndi hún þann skort á möguleikum sem konur, sérstaklega af efri stéttum, höfðu til að láta til sín taka í samfélaginu. Í smásögunni Cassandra sem hún skrifaði um tvítugt og birtist í bókinni Suggestions for Thought velti hún fyrir sér hvers vegna konum sé gefin ástríða, greind og siðgæðisþroski, en engin tækifæri til að nýta þá hæfileika. Lýsir hún því hvernig hjónabandið verður til að styrkja stöðu karla en telur jafnframt að konur festist í þröngum heimi innihaldslítilla athafna. Nightingale giftist ekki og er því oft haldið fram að hún hafi valið einlífi til að getað helgað sig baráttumálum sínum. Hún var sannarlega hæfileikarík, kunni nokkur tungumál, hafði lært stærðfræði og heimspeki og bjó yfir miklum sannfæringarkrafti. Hún var í reglulegu sambandi við ýmsa áhrifamikla hugsuði nítjándu aldarinnar eins og John Stuart Mill, Benjamin Jowett og Edwin Chadwick. Sjá má að hugmyndir hennar um samfélagsumbætur og framfarir á sviði heilbrigðismála mótuðust af hreinlætiskenningunni (e. sanitary theory) sem var afar útbreidd á nítjándu öld.

Í hjúkrun sá Nightingale tækifæri fyrir konur til að láta til sín taka í opinberu lífi og lagði sig fram um að kynnast störfum þeirra sem unnu við hana sem á þeim tíma voru aðallega hjúkrunarsystur. Hún lagði sig fram um að kynna sér heilbrigðismál á ferðalögum sínum og fór í sérstök ferðalög til að skoða hjúkrunarstarfsemi. Í Keiserswerth í Þýskalandi kynnti hún sér starfsemi díakonissa sem nutu leiðsagnar Fliedner-hjónanna á sjúkrahúsi þeirra. Einnig dvaldi hún um tíma í París við sjúkrahús hinna kaþólsku líknarsystra. Það var á grunni þessara heimsókna og hinnar víðtæku þekkingar sem hún hafði tileinkað sér á heilbrigðis- og umhverfisfræði þess tíma sem hún þróaði hugmyndir sínar um hjúkrunarstarfið. Þær hugmyndir fékk hún tækifæri til að prófa við raunverulegar aðstæður er hún var beðin um að taka að sér að skipuleggja hjúkrun breskra hermanna sem börðust í Krímstríðinu. Það olli verulegum áhyggjum heima fyrir að dánartíðni meðal þeirra var himinhá, mun hærri en meðal franskra hermanna sem nutu hjúkrunar kaþólskra hjúkrunarsystra. Nightingale dvaldi ásamt hjúkrunarkonum sínum í tvö ár á Krímskaganum. Þar skipulagði hún sjúkrahúsið og umönnun hermannanna þar sem áhersla var lögð á hreinlæti, gott loft, hollan mat og faglega framkomu. Árangurinn lét ekki á sér standa og dánartíðni lækkaði til muna.



Florence Nightingale var kölluð „konan með lampann“ og á það rætur að rekja til þeirrar venju að ganga á milli sjúkra og særðra hermanna að næturlagi með lampa í hönd til að hjúkra þeim.

Við heimkomuna var Nightingale hyllt sem þjóðhetja. Hún hafði sannfært bresku þjóðina um mikilvægi þess að fylgja hugmyndum heilbrigðisfræðinnar og um gildi hjúkrunarkvenna fyrir velferð almennings. Fram fór söfnun og var Nightingale beðin um að setja fram hugmyndir um það hvernig söfnunarfénu yrði best varið. Hún lagði til að komið væri á stofn hjúkrunarskóla til að mennta konur til hjúkrunarstarfa. Árið 1860 hófst hjúkrunarnám við St. Thomas-sjúkrahúsið í London og hafði Nightingale mikil áhrif á skipulag þess og var í sambandi við nemendurna. Nightingale skrifaði einnig bókina Notes on Nursing sem kom út árið 1859, en í henni setti hún fram sínar hugmyndir um hjúkrun, þó hún taki fram að bókin sé ekki hugsuð sem leiðbeiningarit við framkvæmd hjúkrunar. Bókin var þýdd á fjölmörg tungumál og mótaði hugmyndir um eðli hjúkrunar um allan heim langt fram á tuttugustu öldina.

Á meðan á Krímstríðinu stóð veiktist Nightingale og náði hún aldrei fullu þreki eftir það. Ekki var vitað hvaða sjúkdómur þetta var þá, en nú er talið að hún hafi fengið sjúkdóminn brucellosis sem einnig var nefndur Crimean fever eftir Krímskaganum en hann smitast meðal annars með ógerilsneyddri mjólk. Brucellosis veldur almennri vanlíðan, þreytu og verkjum. Eftir heimkomuna úr stríðinu var Nightingale oft sárþjáð og fór sjaldan út á meðal manna. Hún var þó í miklu sambandi við vini og samstarfsmenn sem heimsóttu hana til að ræða um þjóðþrifamál. Mikilvægasta leið hennar til samskipta voru þó bréfaskriftir og skýrslugerðir sem endurspegla ákafa hennar, greind og sannfæringarkraft. Nightingale notaði gjarnan tölfræði máli sínu til stuðnings, en þar kom stærðfræðiþekking hennar sér vel.

Oft hefur Florence Nightingale verið kölluð „konan með lampann“. Hún var meira en það. Með skrifum sínum hafði hún áhrif á þróun heilbrigðismála á nítjándu öldinni og stuðlaði að því að hjúkrun varð að sjálfstæðri starfsgrein.

Heimildir og myndir:

  • Bostridge, M. (2008). Florence Nightingale: The Woman and Her Legend. London: Penguin.
  • Kristín Björnsdóttir (2005). Líkami og sál: Hugmyndir, þekking og aðferðir í hjúkrun. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Nelson, S. og Rafferty, A. M. (2010). Notes on Nightingale: The Influence and Legacy of a Nursing Icon. Ithaca, NY: Cornell University Press.
  • Mynd af Florence Nightingale: Florence Nightingale á Wikipedia. Sótt 28. 4. 2011.
  • Mynd af konunni með lampann: Florence Nightingale: Mother of Nursing á Edhird's Blog. Sótt 28. 4. 2011.
...