Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er heitur reitur undir Íslandi?

Sigurður Steinþórsson

Réttari væri spurningin tvíþætt: „Er Ísland heitur reitur?“ og „Hvað veldur því að Ísland er heitur reitur?“

Heitir reitir nefnast staðir á jörðinni sem einkennast í fyrsta lagi af mikilli eldvirkni samanborið við svæðin í kring og í öðru lagi af því að þeir rísa hátt yfir umhverfið. Þannig verður ekki um það deilt að Ísland er mun eldvirkari hluti af hryggjakerfi jarðar en Mið-Atlantshafshryggurinn bæði fyrir norðan og sunnan landið. Þetta kemur meðal annars fram í því að blágrýtisskorpan undir Íslandi er um 30 km þykk en skorpan sunnan og norðan við landið er um 6 km að þykkt. Og jafnframt leikur ekki á því vafi að Ísland rís yfir sjávarmál, ólíkt Atlantshafshryggnum fyrir norðan og sunnan.

Af þessum sökum er Ísland óumdeilanlega „heitur reitur“ og hefur svo verið að minnsta kosti í 60 milljón ár, eins og Grænlands-Færeyjahryggurinn sannar. En Grænlands-Færeyjahryggurinn er einhverskonar framhald af Íslandi til VNV og ASA, gerður úr 25-30 km þykkri blágrýtisskorpu. Bergið í Færeyjum og A-Grænlandi er 60-65 milljón ára, myndað þegar þessir staðir voru þar sem Ísland er nú.

Í meira en 30 ár hefur almennt verið talið að heitir reitir myndist þar sem „möttulstrókar“ rísa úr iðrum jarðar. Strókar þessir eru 200-300°C heitari en möttulefnið umhverfis og þess vegna eðlisléttari. Þeir „sjást“ með jarðskjálftabylgjum niður á 450 km dýpi en til þess að „sjá“ þá lengra niður þyrfti mun víðfeðmari og fullkomnari net jarðskjálftamæla en nú eru til staðar.

Hins vegar eru ýmis rök fyrir því að möttulstrókar, að minnsta kosti hinir öflugri þeirra, nái allt niður að mörkum jarðkjarna og -möttuls á 2.900 km dýpi, og að varminn sem þeir bera til yfirborðsins sé frá kjarnanum kominn. Þá hefur verið sýnt fram á það að eðliseiginleikar möttulefnis, sem hitnar nógu mikið til að það fari að „ólga“ líkt og grautur í potti, séu þannig að mjóir, sívalir strókar myndist í stað þess að efnið allt sé á iði.

Að ýmsu leyti minna möttulstrókar, eins og menn hugsa sér þá, á saltstöpla sem alkunnir eru frá Mið-Austurlöndum og víðar: saltlag sem liggur undir fargi eðlisþyngri jarðlaga rís til yfirborðsins í strókum - saltstöplum - og getur meira að segja náð alla leið upp á yfirborð þar sem saltið dreifir úr sér líkt og jökulís.

Kenningin um möttulstróka hefur reynst öflug við að skýra eiginleika heitra reita. Þeir (heitu reitirnir) standa hátt vegna þess að undir þeim er (tiltölulega) eðlisléttur sökkull. Hin mikla eldvirkni, og þar með þykk blágrýtisskorpa, stafar af því hve heitur möttulstrókurinn er: Blágrýtið myndast þegar heitt möttulefni bráðnar vegna þrýstiléttis, og því heitara sem möttulefnið er, þeim mun meiri verður bráðnunin. 200-300°C munur á hita íslenska möttulstróksins og jarðmöttulsins undir Mið-Atlantshafshryggnum fyrir norðan og sunnan nægir til þess að skýra muninn á þykkt skorpunnar.

Jarðefnafræðilegar mælingar á íslenskum blágrýtissýnum benda til um 30% bráðnunar undir landinu, sem svarar til um 25 km þykkrar blágrýtisskorpu. Og jarðskjálftafræðingar telja sig greina mörk blágrýtis og möttulefnis á 25-35 km dýpi. Loks er þess að geta, að möttulstrókar virðast vera tiltölulega staðfastir - og rótfastir í jarðmöttlinum - miðað við skorpu jarðar, sem skiptist í fleka sem eru á reki fram og aftur um yfirborð hnattarins eins og kunnugt er. Þannig hefur fjarlægðin milli heitu reitanna Íslands og Hawaii haldist óbreytt í að minnsta kosti 40 milljón ár.

Eins og mál standa eru svörin því þessi: Ísland er heitur reitur, og undir Íslandi er möttulstrókur, um 200 km í þvermál, sem sennilega nær allar götur niður að mörkum möttuls og kjarna.

Mynd:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

21.10.2003

Spyrjandi

Fríða Halldórsdóttir, f. 1994

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Er heitur reitur undir Íslandi?“ Vísindavefurinn, 21. október 2003. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3811.

Sigurður Steinþórsson. (2003, 21. október). Er heitur reitur undir Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3811

Sigurður Steinþórsson. „Er heitur reitur undir Íslandi?“ Vísindavefurinn. 21. okt. 2003. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3811>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er heitur reitur undir Íslandi?

Réttari væri spurningin tvíþætt: „Er Ísland heitur reitur?“ og „Hvað veldur því að Ísland er heitur reitur?“

Heitir reitir nefnast staðir á jörðinni sem einkennast í fyrsta lagi af mikilli eldvirkni samanborið við svæðin í kring og í öðru lagi af því að þeir rísa hátt yfir umhverfið. Þannig verður ekki um það deilt að Ísland er mun eldvirkari hluti af hryggjakerfi jarðar en Mið-Atlantshafshryggurinn bæði fyrir norðan og sunnan landið. Þetta kemur meðal annars fram í því að blágrýtisskorpan undir Íslandi er um 30 km þykk en skorpan sunnan og norðan við landið er um 6 km að þykkt. Og jafnframt leikur ekki á því vafi að Ísland rís yfir sjávarmál, ólíkt Atlantshafshryggnum fyrir norðan og sunnan.

Af þessum sökum er Ísland óumdeilanlega „heitur reitur“ og hefur svo verið að minnsta kosti í 60 milljón ár, eins og Grænlands-Færeyjahryggurinn sannar. En Grænlands-Færeyjahryggurinn er einhverskonar framhald af Íslandi til VNV og ASA, gerður úr 25-30 km þykkri blágrýtisskorpu. Bergið í Færeyjum og A-Grænlandi er 60-65 milljón ára, myndað þegar þessir staðir voru þar sem Ísland er nú.

Í meira en 30 ár hefur almennt verið talið að heitir reitir myndist þar sem „möttulstrókar“ rísa úr iðrum jarðar. Strókar þessir eru 200-300°C heitari en möttulefnið umhverfis og þess vegna eðlisléttari. Þeir „sjást“ með jarðskjálftabylgjum niður á 450 km dýpi en til þess að „sjá“ þá lengra niður þyrfti mun víðfeðmari og fullkomnari net jarðskjálftamæla en nú eru til staðar.

Hins vegar eru ýmis rök fyrir því að möttulstrókar, að minnsta kosti hinir öflugri þeirra, nái allt niður að mörkum jarðkjarna og -möttuls á 2.900 km dýpi, og að varminn sem þeir bera til yfirborðsins sé frá kjarnanum kominn. Þá hefur verið sýnt fram á það að eðliseiginleikar möttulefnis, sem hitnar nógu mikið til að það fari að „ólga“ líkt og grautur í potti, séu þannig að mjóir, sívalir strókar myndist í stað þess að efnið allt sé á iði.

Að ýmsu leyti minna möttulstrókar, eins og menn hugsa sér þá, á saltstöpla sem alkunnir eru frá Mið-Austurlöndum og víðar: saltlag sem liggur undir fargi eðlisþyngri jarðlaga rís til yfirborðsins í strókum - saltstöplum - og getur meira að segja náð alla leið upp á yfirborð þar sem saltið dreifir úr sér líkt og jökulís.

Kenningin um möttulstróka hefur reynst öflug við að skýra eiginleika heitra reita. Þeir (heitu reitirnir) standa hátt vegna þess að undir þeim er (tiltölulega) eðlisléttur sökkull. Hin mikla eldvirkni, og þar með þykk blágrýtisskorpa, stafar af því hve heitur möttulstrókurinn er: Blágrýtið myndast þegar heitt möttulefni bráðnar vegna þrýstiléttis, og því heitara sem möttulefnið er, þeim mun meiri verður bráðnunin. 200-300°C munur á hita íslenska möttulstróksins og jarðmöttulsins undir Mið-Atlantshafshryggnum fyrir norðan og sunnan nægir til þess að skýra muninn á þykkt skorpunnar.

Jarðefnafræðilegar mælingar á íslenskum blágrýtissýnum benda til um 30% bráðnunar undir landinu, sem svarar til um 25 km þykkrar blágrýtisskorpu. Og jarðskjálftafræðingar telja sig greina mörk blágrýtis og möttulefnis á 25-35 km dýpi. Loks er þess að geta, að möttulstrókar virðast vera tiltölulega staðfastir - og rótfastir í jarðmöttlinum - miðað við skorpu jarðar, sem skiptist í fleka sem eru á reki fram og aftur um yfirborð hnattarins eins og kunnugt er. Þannig hefur fjarlægðin milli heitu reitanna Íslands og Hawaii haldist óbreytt í að minnsta kosti 40 milljón ár.

Eins og mál standa eru svörin því þessi: Ísland er heitur reitur, og undir Íslandi er möttulstrókur, um 200 km í þvermál, sem sennilega nær allar götur niður að mörkum möttuls og kjarna.

Mynd:...