Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvar finnst myndbreytt berg og hvernig kemst það aftur upp á yfirborðið eftir að hafa verið djúpt í jörðu?

Sigurður Steinþórsson

Myndbreytt berg finnst hvarvetna þar sem berg hefur hitnað yfir 300°C eða svo niðri í jörðinni. Það berst upp á yfirborðið aftur við rof.

Eins og fram kemur í spurningunni, verður myndbreyting bergs einkum djúpt í jörðu, á hitabilinu 300-850°C. Venjulega er átt við berg sem upphaflega myndaðist við yfirborð – til dæmis basalthraun eða setberg – en grófst síðan undir yngra bergi og leitaði efnajafnvægis við hærri hita og þrýsting. Þessu má lýsa á meðfylgjandi P-T-t-grafi (þrýstingur – hiti – tími):



Berg við yfirborð (tími t0) grefst undir yngra bergi og hitnar upp (t1, t2). Hámarks hita er náð við t3 og síðan rís bergið í átt til yfirborðsins jafnframt því sem það kólnar (t4).

Myndbreyting er flokkuð eftir myndunarháttum, en meginflokkarnir eru þrír: innskots-myndbreyting (e. contact metamorphism), fellinga-myndbreyting (e. regional metamorphism) og fergingar-myndbreyting (e. burial metamorphism).

Innskots-myndbreyting verður, eins og nafnið bendir til, kringum innskot, ekki síst stóra granít-hleyfa (sjá tvær næstu myndir). Fræg dæmi eru granítin í Cornwall á Englandi, en hér á landi hefur myndbreytingu af þessu tagi verið lýst kringum ýmsar fornar megineldstöðvar sem jökulrof hefur fært upp á yfirborðið.



Snið gegnum granít-innskot. Grannbergið í kring hitnar og myndbreytist – þrír jafnhitaferlar eru merktir T1 til T3. Lágrétt brotalína merkir yfirborðið á næstu mynd.


Kort af myndbreytingu kringum innskotið á myndinni hér fyrir ofan. Hæsta stig myndbreytingar er næst innskotinu en dvínar með fjarlægð.

Fellinga-myndbreyting verður í rótum fellingafjalla, en þau hlaðast upp yfir sökkbeltum þar sem hafsbotnsskorpa sekkur niður í jarðmöttulinn. Dæmi um virk fellingafjöll eru Andes- og Klettafjöll á vesturbrún Suður- og Norður-Ameríku, og Alpafellingin sem teygir sig frá Vestur-Evrópu til Himalajafjalla. Yfir sökkbeltum safnast gríðarþykkir staflar af seti sem hitna upp af völdum geislavirkra efna og myndbreytast. Í tímans rás rofna fellingafjöllin og myndbreytt berg opnast á yfirborði. Meginlandsskildir jarðar eru mestmegnis berg þannig myndað. (Sjá grein Sigurðar Steinþórssonar (2001) Myndun meginlandskorpu, Náttúrufræðingurinn 70: 165-174).



Fellingafjöll myndast yfir stökkbelti. Dökkblái liturinn er hafsbotnsskorpa, ljósblái er sjórin. Rauðu litirnir tákna hita í setbunkanum; brotalínan er framtíðar-rofflötur.

Fergingar-myndbreyting verður þegar berg grefst undir yngra bergi og hitnar aftur eftir ríkjandi hitastigli. Megindæmi er hafsbotninn og þar með jarðskorpa Íslands. Ekki er að því hlaupið að skoða slíka myndbreytingu, en frægir staðir eru svonefnd ófíólít, sem eru hlunkar af hafsbotnsskorpu sem orðið hafa innlyksa í fellingafjöllum. Kunnur staður er Troodos-hálendið á Kýpur, þar sem norðurrek Afríku hefur þrýst hafsbotnsskorpu forn-Miðjarðarhafs upp á meginlandsskorpu Evrópu.

Myndir: Sigurður Steinþórsson.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

4.10.2010

Spyrjandi

Magnea Kristleifsdóttir

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvar finnst myndbreytt berg og hvernig kemst það aftur upp á yfirborðið eftir að hafa verið djúpt í jörðu?“ Vísindavefurinn, 4. október 2010. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=29530.

Sigurður Steinþórsson. (2010, 4. október). Hvar finnst myndbreytt berg og hvernig kemst það aftur upp á yfirborðið eftir að hafa verið djúpt í jörðu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=29530

Sigurður Steinþórsson. „Hvar finnst myndbreytt berg og hvernig kemst það aftur upp á yfirborðið eftir að hafa verið djúpt í jörðu?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2010. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=29530>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar finnst myndbreytt berg og hvernig kemst það aftur upp á yfirborðið eftir að hafa verið djúpt í jörðu?
Myndbreytt berg finnst hvarvetna þar sem berg hefur hitnað yfir 300°C eða svo niðri í jörðinni. Það berst upp á yfirborðið aftur við rof.

Eins og fram kemur í spurningunni, verður myndbreyting bergs einkum djúpt í jörðu, á hitabilinu 300-850°C. Venjulega er átt við berg sem upphaflega myndaðist við yfirborð – til dæmis basalthraun eða setberg – en grófst síðan undir yngra bergi og leitaði efnajafnvægis við hærri hita og þrýsting. Þessu má lýsa á meðfylgjandi P-T-t-grafi (þrýstingur – hiti – tími):



Berg við yfirborð (tími t0) grefst undir yngra bergi og hitnar upp (t1, t2). Hámarks hita er náð við t3 og síðan rís bergið í átt til yfirborðsins jafnframt því sem það kólnar (t4).

Myndbreyting er flokkuð eftir myndunarháttum, en meginflokkarnir eru þrír: innskots-myndbreyting (e. contact metamorphism), fellinga-myndbreyting (e. regional metamorphism) og fergingar-myndbreyting (e. burial metamorphism).

Innskots-myndbreyting verður, eins og nafnið bendir til, kringum innskot, ekki síst stóra granít-hleyfa (sjá tvær næstu myndir). Fræg dæmi eru granítin í Cornwall á Englandi, en hér á landi hefur myndbreytingu af þessu tagi verið lýst kringum ýmsar fornar megineldstöðvar sem jökulrof hefur fært upp á yfirborðið.



Snið gegnum granít-innskot. Grannbergið í kring hitnar og myndbreytist – þrír jafnhitaferlar eru merktir T1 til T3. Lágrétt brotalína merkir yfirborðið á næstu mynd.


Kort af myndbreytingu kringum innskotið á myndinni hér fyrir ofan. Hæsta stig myndbreytingar er næst innskotinu en dvínar með fjarlægð.

Fellinga-myndbreyting verður í rótum fellingafjalla, en þau hlaðast upp yfir sökkbeltum þar sem hafsbotnsskorpa sekkur niður í jarðmöttulinn. Dæmi um virk fellingafjöll eru Andes- og Klettafjöll á vesturbrún Suður- og Norður-Ameríku, og Alpafellingin sem teygir sig frá Vestur-Evrópu til Himalajafjalla. Yfir sökkbeltum safnast gríðarþykkir staflar af seti sem hitna upp af völdum geislavirkra efna og myndbreytast. Í tímans rás rofna fellingafjöllin og myndbreytt berg opnast á yfirborði. Meginlandsskildir jarðar eru mestmegnis berg þannig myndað. (Sjá grein Sigurðar Steinþórssonar (2001) Myndun meginlandskorpu, Náttúrufræðingurinn 70: 165-174).



Fellingafjöll myndast yfir stökkbelti. Dökkblái liturinn er hafsbotnsskorpa, ljósblái er sjórin. Rauðu litirnir tákna hita í setbunkanum; brotalínan er framtíðar-rofflötur.

Fergingar-myndbreyting verður þegar berg grefst undir yngra bergi og hitnar aftur eftir ríkjandi hitastigli. Megindæmi er hafsbotninn og þar með jarðskorpa Íslands. Ekki er að því hlaupið að skoða slíka myndbreytingu, en frægir staðir eru svonefnd ófíólít, sem eru hlunkar af hafsbotnsskorpu sem orðið hafa innlyksa í fellingafjöllum. Kunnur staður er Troodos-hálendið á Kýpur, þar sem norðurrek Afríku hefur þrýst hafsbotnsskorpu forn-Miðjarðarhafs upp á meginlandsskorpu Evrópu.

Myndir: Sigurður Steinþórsson....