Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er sagan á bak við hátíðahöld um verslunarmannahelgina?

Árni Björnsson

Verslunarmannahelgin er kennd við frídag verslunarmanna fyrsta mánudag í ágúst. Sú dagsetning hefur haldist óbreytt frá 1934. Áður höfðu verslunarmenn í Reykjavík átt frídag á ýmsum dögum frá 1894. Tímasetningin á rót að rekja til þjóðhátíðarinnar 2. ágúst 1874. Hennar var reglulega minnst í Reykjavík kringum aldamótin, og héldu verslunarmenn löngum tryggð við daginn eftir að fullveldisdagurinn hafði tekið við sem helsti þjóðminningardagur upp úr 1918. Eftir síðari heimsstyrjöld varð frídagur verslunarmanna smám saman almennur frídagur, notaður til ferðalaga og skemmtanahalds, og á sjöunda áratugnum var tekið að efna til skipulagðra útihátíða víða um land.

Sumar 1874 var í fyrsta sinn haldin þjóðhátíð á Íslandi. Það var í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar og heimsóknar Kristjáns konungs níunda sem þá færði Íslendingum „stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“. Hátíðahöldin voru á ýmsum dögum víða um land en aðalhátíðin var í Reykjavík 2. ágúst og á Þingvöllum 7. ágúst.

Þjóðhátíðin 1874 heppnaðist einkar vel. Menn þyrptust þúsundum saman á Þingvelli, og var sú hátíð ein og sér einhver fjölmennasta samkoma sem nokkru sinni hafði verið haldin á Íslandi. Hátíðahaldið og konungskoman efldu þjóðarvitund Íslendinga, hugmyndir þeirra um merkilega sérstöðu meðal þjóða og almennt sjálfstraust. Þar skipti nokkru að hátíðin vakti talsverða athygli erlendis. Fulltrúar grannþjóðanna fluttu Íslendingum árnaðaróskir og gjafir, og erlendir blaðamenn skýrðu frá viðburðum á þjóðhátíðinni í víðlesnum blöðum með glæsilegum teikningum af konungsferðum, kvæðaflutningi og dansleikjahaldi.

Verslunarmannahelgin er ein mesta ferða- og skemmtihelgi ársins með útihátíðum og viðburðir víða um land en upphaf þessa alls má rekja aftur til 19. aldar.

Á næstu árum var stöku sinnum reynt að efna til svipaðrar hátíðar, einkum á Akureyri og í Reykjavík. Þar var 2. ágúst haldin einskonar þjóðhátíðarminning árið 1875, 1879 og 1884. Iðnaðarmannafélagið opnaði sýningu í barnaskólanum þann dag árið 1883 og minnisvarði um Hallgrím Pétursson var afhjúpaður sama dag árið 1885. Allt var þetta þó meira á vegum einstaklinga en yfirvalda.[1]

Árið 1894 fékk Verslunarmannafélag Reykjavíkur sinn fyrsta almenna frídag. Það gekkst þá fyrir útiskemmtun 13. september í Ártúni við Elliðaár. Hún hófst klukkan hálf-tólf og síðan var unað við ræðuhöld, söng og lúðraspil, kapphlaup, leiki, mat, hressingu og dans til klukkan sjö þegar lagt var af stað til Reykjavíkur með söng og hljóðfæraslátt í broddi fylkingar. Sumarið eftir var skemmtunin haldin 14. ágúst á sama stað en lagt af stað þangað í fylkingu frá Lækjartorgi klukkan tíu. Svipaður háttur var hafður á 26. ágúst 1896.

Árið 1897 hvatti Stúdentafélagið í Reykjavík öll félög í bænum til að gangast saman fyrir hátíðahaldi 2. ágúst um sumarið. Hátíðin var haldin á Rauðarártúni en bærinn Rauðará stóð nokkurn veginn þar sem nú er Frímúrarahúsið við Borgartún. Verslunarmannafélagið tók þátt í hátíðinni eins og flest önnur félög. Flest ár eftir þetta og fram til 1909 var þjóðhátíð Reykvíkinga haldin 2. ágúst með svipuðum hætti á Landakotstúni.[2]

Árið 1902 drógu verslunarmenn sig út úr þjóðhátíðarnefndinni. Ástæðan var einkum sú að bindindismenn höfðu komist þar í meirihluta og ákveðið að engar vínveitingar skyldu leyfðar á hátíðinni. Í staðinn fóru verslunarmenn í skemmtiferð 17. ágúst með gufubátnum Reykjavík inn að Þyrli í Hvalfirði þar sem dvalist var mestan hluta dags við dans og leiki. Hver hafði sitt nesti en „ölföng og lemonade sá stjórnin um að hægt væri að fá í ferðinni“ segir í fundargerðabók félagsins sama ár. Um 140 manns tóku þátt í förinni sem stóð frá hálf-tíu um morguninn til hálf-ellefu um kvöldið.

Fyrst eftir þetta héldu verslunarmenn sumarskemmtanir í nágrenni Reykjavíkur. Árið 1908 komu þeir til dæmis saman 19. ágúst í Kópavogi, en 1918 í Vatnaskógi við Hvalfjörð 2. ágúst. Þá höfðu þeir aftur tekið upp ferðalög og gamla hátíðisdaginn sem var að mestu úr sögunni hjá öðrum. Veturinn 1933-1934 var ákveðið að frídagur verslunarmanna skyldi vera fyrsti mánudagur í ágúst og hefur svo verið síðan. Árið 1935 tók Verslunarmannafélag Reykjavíkur að halda útisamkomu sína á Þingvöllum og stóð sú tilhögun fram að síðari heimsstyrjöld.[3]

Eftir styrjöldina fékk verslunarmannahelgin smám saman það snið sem enn ríkir með skipulögðum útihátíðum og ferðalögum og mánudagurinn varð í reynd almennur frídagur. Ferðafélög og ferðaskrifstofur byrjuðu að gangast fyrir löngum helgarferðum, til dæmis í Þórsmörk, Húsafell og Vaglaskó. Ungt fólk fór snemma að nýta sér hina löngu helgi til útilegu í nánd við dansleiki. Þegar árið 1952 er kvartað yfir „óheyrilegri ölvun og skrílmennsku“ um verslunarmannahelgina, einkum við Hreðavatnsskála þar sem „ölmóður óspektarlýður ... framdi mikil spell“.[4]

Ungmennasambönd, átthagafélög og bindindishreyfingin létu upp frá þessu meira til sín taka við skemmtanahald um þessa helgi og fleiri staðir komu til sögu, svo sem Atlavík, Bjarkalundur, Skógarhólar og Galtalækjarskógur. Árið 1967 virðist hafa orðið eins konar stökkbreyting. Þá eru haldnar átta útihátíðir víðsvegar um landið og talið að 36 þúsund manns hafi tekið þátt í þeim.[5]

Tilvísanir:
  1. ^ Árni Björnsson. Þjóðminningardagar, 111-118. Brynleifur Tobíasson, Þjóðhátíðin 1874.
  2. ^ Árni Björnsson, Þjóðminningardagar, 118-122, 124-125, 128-138.
  3. ^ Árni Björnsson, Þjóðminningardagar, 139-140.
  4. ^ Mbl. 5. ágúst 1952. Vísir 5. ágúst 1952.
  5. ^ Sjá dagblöð að lokinni verslunarmannahelgi.

Mynd:

Upphaflega hljóðuðu spurningarnar svona:
  • Hvenær var byrjað að halda verslunarmannafrídaginn og helgina eins og við þekkjum það í dag?
  • Hver er sagan á bak við frídag verslunarmanna?


Þetta svar er aðeins stytt útgáfa af umfjöllun um verslunarmannahelgina í bókinni Saga daganna og birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

1.8.2014

Spyrjandi

Jónas Guðmundsson, Andrea Ævarsdóttir

Tilvísun

Árni Björnsson. „Hver er sagan á bak við hátíðahöld um verslunarmannahelgina?“ Vísindavefurinn, 1. ágúst 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=25689.

Árni Björnsson. (2014, 1. ágúst). Hver er sagan á bak við hátíðahöld um verslunarmannahelgina? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=25689

Árni Björnsson. „Hver er sagan á bak við hátíðahöld um verslunarmannahelgina?“ Vísindavefurinn. 1. ágú. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=25689>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er sagan á bak við hátíðahöld um verslunarmannahelgina?
Verslunarmannahelgin er kennd við frídag verslunarmanna fyrsta mánudag í ágúst. Sú dagsetning hefur haldist óbreytt frá 1934. Áður höfðu verslunarmenn í Reykjavík átt frídag á ýmsum dögum frá 1894. Tímasetningin á rót að rekja til þjóðhátíðarinnar 2. ágúst 1874. Hennar var reglulega minnst í Reykjavík kringum aldamótin, og héldu verslunarmenn löngum tryggð við daginn eftir að fullveldisdagurinn hafði tekið við sem helsti þjóðminningardagur upp úr 1918. Eftir síðari heimsstyrjöld varð frídagur verslunarmanna smám saman almennur frídagur, notaður til ferðalaga og skemmtanahalds, og á sjöunda áratugnum var tekið að efna til skipulagðra útihátíða víða um land.

Sumar 1874 var í fyrsta sinn haldin þjóðhátíð á Íslandi. Það var í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar og heimsóknar Kristjáns konungs níunda sem þá færði Íslendingum „stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands“. Hátíðahöldin voru á ýmsum dögum víða um land en aðalhátíðin var í Reykjavík 2. ágúst og á Þingvöllum 7. ágúst.

Þjóðhátíðin 1874 heppnaðist einkar vel. Menn þyrptust þúsundum saman á Þingvelli, og var sú hátíð ein og sér einhver fjölmennasta samkoma sem nokkru sinni hafði verið haldin á Íslandi. Hátíðahaldið og konungskoman efldu þjóðarvitund Íslendinga, hugmyndir þeirra um merkilega sérstöðu meðal þjóða og almennt sjálfstraust. Þar skipti nokkru að hátíðin vakti talsverða athygli erlendis. Fulltrúar grannþjóðanna fluttu Íslendingum árnaðaróskir og gjafir, og erlendir blaðamenn skýrðu frá viðburðum á þjóðhátíðinni í víðlesnum blöðum með glæsilegum teikningum af konungsferðum, kvæðaflutningi og dansleikjahaldi.

Verslunarmannahelgin er ein mesta ferða- og skemmtihelgi ársins með útihátíðum og viðburðir víða um land en upphaf þessa alls má rekja aftur til 19. aldar.

Á næstu árum var stöku sinnum reynt að efna til svipaðrar hátíðar, einkum á Akureyri og í Reykjavík. Þar var 2. ágúst haldin einskonar þjóðhátíðarminning árið 1875, 1879 og 1884. Iðnaðarmannafélagið opnaði sýningu í barnaskólanum þann dag árið 1883 og minnisvarði um Hallgrím Pétursson var afhjúpaður sama dag árið 1885. Allt var þetta þó meira á vegum einstaklinga en yfirvalda.[1]

Árið 1894 fékk Verslunarmannafélag Reykjavíkur sinn fyrsta almenna frídag. Það gekkst þá fyrir útiskemmtun 13. september í Ártúni við Elliðaár. Hún hófst klukkan hálf-tólf og síðan var unað við ræðuhöld, söng og lúðraspil, kapphlaup, leiki, mat, hressingu og dans til klukkan sjö þegar lagt var af stað til Reykjavíkur með söng og hljóðfæraslátt í broddi fylkingar. Sumarið eftir var skemmtunin haldin 14. ágúst á sama stað en lagt af stað þangað í fylkingu frá Lækjartorgi klukkan tíu. Svipaður háttur var hafður á 26. ágúst 1896.

Árið 1897 hvatti Stúdentafélagið í Reykjavík öll félög í bænum til að gangast saman fyrir hátíðahaldi 2. ágúst um sumarið. Hátíðin var haldin á Rauðarártúni en bærinn Rauðará stóð nokkurn veginn þar sem nú er Frímúrarahúsið við Borgartún. Verslunarmannafélagið tók þátt í hátíðinni eins og flest önnur félög. Flest ár eftir þetta og fram til 1909 var þjóðhátíð Reykvíkinga haldin 2. ágúst með svipuðum hætti á Landakotstúni.[2]

Árið 1902 drógu verslunarmenn sig út úr þjóðhátíðarnefndinni. Ástæðan var einkum sú að bindindismenn höfðu komist þar í meirihluta og ákveðið að engar vínveitingar skyldu leyfðar á hátíðinni. Í staðinn fóru verslunarmenn í skemmtiferð 17. ágúst með gufubátnum Reykjavík inn að Þyrli í Hvalfirði þar sem dvalist var mestan hluta dags við dans og leiki. Hver hafði sitt nesti en „ölföng og lemonade sá stjórnin um að hægt væri að fá í ferðinni“ segir í fundargerðabók félagsins sama ár. Um 140 manns tóku þátt í förinni sem stóð frá hálf-tíu um morguninn til hálf-ellefu um kvöldið.

Fyrst eftir þetta héldu verslunarmenn sumarskemmtanir í nágrenni Reykjavíkur. Árið 1908 komu þeir til dæmis saman 19. ágúst í Kópavogi, en 1918 í Vatnaskógi við Hvalfjörð 2. ágúst. Þá höfðu þeir aftur tekið upp ferðalög og gamla hátíðisdaginn sem var að mestu úr sögunni hjá öðrum. Veturinn 1933-1934 var ákveðið að frídagur verslunarmanna skyldi vera fyrsti mánudagur í ágúst og hefur svo verið síðan. Árið 1935 tók Verslunarmannafélag Reykjavíkur að halda útisamkomu sína á Þingvöllum og stóð sú tilhögun fram að síðari heimsstyrjöld.[3]

Eftir styrjöldina fékk verslunarmannahelgin smám saman það snið sem enn ríkir með skipulögðum útihátíðum og ferðalögum og mánudagurinn varð í reynd almennur frídagur. Ferðafélög og ferðaskrifstofur byrjuðu að gangast fyrir löngum helgarferðum, til dæmis í Þórsmörk, Húsafell og Vaglaskó. Ungt fólk fór snemma að nýta sér hina löngu helgi til útilegu í nánd við dansleiki. Þegar árið 1952 er kvartað yfir „óheyrilegri ölvun og skrílmennsku“ um verslunarmannahelgina, einkum við Hreðavatnsskála þar sem „ölmóður óspektarlýður ... framdi mikil spell“.[4]

Ungmennasambönd, átthagafélög og bindindishreyfingin létu upp frá þessu meira til sín taka við skemmtanahald um þessa helgi og fleiri staðir komu til sögu, svo sem Atlavík, Bjarkalundur, Skógarhólar og Galtalækjarskógur. Árið 1967 virðist hafa orðið eins konar stökkbreyting. Þá eru haldnar átta útihátíðir víðsvegar um landið og talið að 36 þúsund manns hafi tekið þátt í þeim.[5]

Tilvísanir:
  1. ^ Árni Björnsson. Þjóðminningardagar, 111-118. Brynleifur Tobíasson, Þjóðhátíðin 1874.
  2. ^ Árni Björnsson, Þjóðminningardagar, 118-122, 124-125, 128-138.
  3. ^ Árni Björnsson, Þjóðminningardagar, 139-140.
  4. ^ Mbl. 5. ágúst 1952. Vísir 5. ágúst 1952.
  5. ^ Sjá dagblöð að lokinni verslunarmannahelgi.

Mynd:

Upphaflega hljóðuðu spurningarnar svona:
  • Hvenær var byrjað að halda verslunarmannafrídaginn og helgina eins og við þekkjum það í dag?
  • Hver er sagan á bak við frídag verslunarmanna?


Þetta svar er aðeins stytt útgáfa af umfjöllun um verslunarmannahelgina í bókinni Saga daganna og birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar....