Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvers eðlis er sálin?

Sigurður J. Grétarsson

Hugtakið sál hefur margs konar merkingu, og hefur gegnt lykilhlutverki í trúarbrögðum. Náttúruvísindi fjalla um náttúruna og reyna að skýra fyrirbæri hennar náttúrlegum skilningi. Sálfræði hefur mótast af þeirri hefð. Því er það svo, þó undarlegt megi telja, að sálfræðin fjallar í raun ekki um hugtakið sál. Þó má segja að sumt af því sem hugtakið sál felur í sér sé auðvitað á sviði sálfræðinnar, en nú er fengist við það efni frá öðru sjónarhorni en fyrr á öldum.

Nokkrir hafa spurt um sálina, eðli hennar, virkni og jafnvel um afdrif hennar eftir dauðann. Það er eðlilegt að menn leiti þá fyrst til þeirrar fræðigreinar sem heitir eftir sálinni, sálfræðinnar.

En svo undarlega vill til að sálfræðin fjallar lítið um sálina. Sá sem flettir upp orðinu sál í sálfræðibókum finnur nánast enga umfjöllun um þetta fyrirbæri. Fjallað er um hug, vitund, vilja, tilfinningar, hegðun, skynjun, skilning, greind. En hugtakið sál er nánast hvergi að finna.

Orðið sem gefur sálfræðinni nafn sitt er grískt að uppruna og merkir upphaflega lífsanda eða hreyfiafl mannsins en fær með tímanum alls kyns merkingu, bæði trúarlega og veraldlega. Það er því í raun í verkahring þeirra sem fjalla um hugmynda- og heimspekisögu að gera grein fyrir því hvaða merkingu sálarhugtakið hefur haft á mismunandi tímum og hvaða skilning fræðimenn og almenningur hafa lagt í það. Um aldir voru guðfræði og fræði um mannlega tilveru óaðskiljanleg; sál mannsins var að flestra viti svo til merkingarlaus án tengsla við guð. Kennimenn og guðfræðingar skýrðu hvernig mætti skilja þetta.

Með þeim umskiptum sem urðu í lok miðalda tóku fræðimenn svo að gera greinarmun á veraldlegri vitneskju og guðlegri og með siðaskiptum, landafundum, útbreiðslu prentlistar og vísindabyltingu breyttist umræða um sál og sálarlíf jafnt og þétt þannig að hver heimspekingurinn á fætur öðrum gerði grein fyrir möguleikum á jarðneskri þekkingu án þess að guðleg sál léki þar nema lítil aukahlutverk. Þá sneiddu menn beinlínis - en þó fimlega - hjá guðlegum eiginleikum svonefndrar sálar.

Fræðigreinin sálfræði byggist á þessum skilningi. Við þá undirstöðu bætist síðan að náttúruvísindaleg aðferð hefur í raun ekkert að segja um guðfræðilegar útlistanir, nema að svo miklu leyti sem þær seilast inn á verksvið náttúrufræðinnar. Líf eftir dauðann, guðleg íhlutun í mannlega tilveru og efni af þeim toga eru samkvæmt skilgreiningu ekki á sviði náttúruvísinda. Sálfræðin tók því strax við upphaf sitt á 19. öld að huga að mannlegri skynjun, skilningi, greind og hugsun með aðferð náttúruvísinda og sneiddi markvisst hjá guðlegum eða andlegum sálarkröftum. Nú á tímum gegnir sálarhugtakið því í raun engu hlutverki í náttúruvísindum. Slík vísindi vísa því beint til föðurhúsanna, það er guðfræðinga, kennimanna og heimspekinga, að fjalla um eiginleika sálarinnar.

En sú afstaða leysir auðvitað ekki úr öllum þeim vanda sem spurningar um sálina skapa. Þær spurningar snerta nefnilega marga þá strengi sem ná hvað lengst niður í djúp óvissunnar. Þær koma við grundvelli allrar frumspeki, verufræði, þekkingarfræði, hugspeki og siðfræði. Vísindin geta vísað frá sér spurningum um sálina, en enn er þó ósvarað spurningum eins og hvert er eðli hugarins andspænis efni? Hvernig getur maður vitað eitthvað? Getur hugur átt sér sjálfstæða tilvist óháð efni? Og er til einhver réttlæting siðaboða sem er sannarlega æðri mannlegum hagsmunum? Þannig glittir enn í sálina þegar talið berst að hinstu rökum. Og þá er - eðli málsins samkvæmt - erfiðara að skilja en nokkru sinni fyrr.

Mynd: GWU Department of Psychology.


Frá ritstjórn:

Höfundur þessa svars er dósent í sálarfræði og fjallar um spurninguna frá sjónarhóli þeirrar fræðigreinar. Í eftirfarandi svörum er fjallað um svipaðar eða skyldar spurningar frá öðrum sjónarmiðum, meðal annars frá sjónarhóli annarra fræðigreina:

Höfundur

Sigurður J. Grétarsson

prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

15.6.2000

Spyrjandi

Sigfríð Þórisdóttir

Efnisorð

Tilvísun

Sigurður J. Grétarsson. „Hvers eðlis er sálin?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2000. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=521.

Sigurður J. Grétarsson. (2000, 15. júní). Hvers eðlis er sálin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=521

Sigurður J. Grétarsson. „Hvers eðlis er sálin?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2000. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=521>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers eðlis er sálin?
Hugtakið sál hefur margs konar merkingu, og hefur gegnt lykilhlutverki í trúarbrögðum. Náttúruvísindi fjalla um náttúruna og reyna að skýra fyrirbæri hennar náttúrlegum skilningi. Sálfræði hefur mótast af þeirri hefð. Því er það svo, þó undarlegt megi telja, að sálfræðin fjallar í raun ekki um hugtakið sál. Þó má segja að sumt af því sem hugtakið sál felur í sér sé auðvitað á sviði sálfræðinnar, en nú er fengist við það efni frá öðru sjónarhorni en fyrr á öldum.

Nokkrir hafa spurt um sálina, eðli hennar, virkni og jafnvel um afdrif hennar eftir dauðann. Það er eðlilegt að menn leiti þá fyrst til þeirrar fræðigreinar sem heitir eftir sálinni, sálfræðinnar.

En svo undarlega vill til að sálfræðin fjallar lítið um sálina. Sá sem flettir upp orðinu sál í sálfræðibókum finnur nánast enga umfjöllun um þetta fyrirbæri. Fjallað er um hug, vitund, vilja, tilfinningar, hegðun, skynjun, skilning, greind. En hugtakið sál er nánast hvergi að finna.

Orðið sem gefur sálfræðinni nafn sitt er grískt að uppruna og merkir upphaflega lífsanda eða hreyfiafl mannsins en fær með tímanum alls kyns merkingu, bæði trúarlega og veraldlega. Það er því í raun í verkahring þeirra sem fjalla um hugmynda- og heimspekisögu að gera grein fyrir því hvaða merkingu sálarhugtakið hefur haft á mismunandi tímum og hvaða skilning fræðimenn og almenningur hafa lagt í það. Um aldir voru guðfræði og fræði um mannlega tilveru óaðskiljanleg; sál mannsins var að flestra viti svo til merkingarlaus án tengsla við guð. Kennimenn og guðfræðingar skýrðu hvernig mætti skilja þetta.

Með þeim umskiptum sem urðu í lok miðalda tóku fræðimenn svo að gera greinarmun á veraldlegri vitneskju og guðlegri og með siðaskiptum, landafundum, útbreiðslu prentlistar og vísindabyltingu breyttist umræða um sál og sálarlíf jafnt og þétt þannig að hver heimspekingurinn á fætur öðrum gerði grein fyrir möguleikum á jarðneskri þekkingu án þess að guðleg sál léki þar nema lítil aukahlutverk. Þá sneiddu menn beinlínis - en þó fimlega - hjá guðlegum eiginleikum svonefndrar sálar.

Fræðigreinin sálfræði byggist á þessum skilningi. Við þá undirstöðu bætist síðan að náttúruvísindaleg aðferð hefur í raun ekkert að segja um guðfræðilegar útlistanir, nema að svo miklu leyti sem þær seilast inn á verksvið náttúrufræðinnar. Líf eftir dauðann, guðleg íhlutun í mannlega tilveru og efni af þeim toga eru samkvæmt skilgreiningu ekki á sviði náttúruvísinda. Sálfræðin tók því strax við upphaf sitt á 19. öld að huga að mannlegri skynjun, skilningi, greind og hugsun með aðferð náttúruvísinda og sneiddi markvisst hjá guðlegum eða andlegum sálarkröftum. Nú á tímum gegnir sálarhugtakið því í raun engu hlutverki í náttúruvísindum. Slík vísindi vísa því beint til föðurhúsanna, það er guðfræðinga, kennimanna og heimspekinga, að fjalla um eiginleika sálarinnar.

En sú afstaða leysir auðvitað ekki úr öllum þeim vanda sem spurningar um sálina skapa. Þær spurningar snerta nefnilega marga þá strengi sem ná hvað lengst niður í djúp óvissunnar. Þær koma við grundvelli allrar frumspeki, verufræði, þekkingarfræði, hugspeki og siðfræði. Vísindin geta vísað frá sér spurningum um sálina, en enn er þó ósvarað spurningum eins og hvert er eðli hugarins andspænis efni? Hvernig getur maður vitað eitthvað? Getur hugur átt sér sjálfstæða tilvist óháð efni? Og er til einhver réttlæting siðaboða sem er sannarlega æðri mannlegum hagsmunum? Þannig glittir enn í sálina þegar talið berst að hinstu rökum. Og þá er - eðli málsins samkvæmt - erfiðara að skilja en nokkru sinni fyrr.

Mynd: GWU Department of Psychology.


Frá ritstjórn:

Höfundur þessa svars er dósent í sálarfræði og fjallar um spurninguna frá sjónarhóli þeirrar fræðigreinar. Í eftirfarandi svörum er fjallað um svipaðar eða skyldar spurningar frá öðrum sjónarmiðum, meðal annars frá sjónarhóli annarra fræðigreina:

...